„Smánarblettur á ímynd Evrópu“

Landamæri Grikklands og Makedóníu
Landamæri Grikklands og Makedóníu AFP

Utanríkisráðherra Spánar, José Manuel García-Margallo, varar við því deilan um móttöku flóttamanna í Evrópu geti orðið smánarblettur á ímynd Evrópu. Hann segir að Spánn muni taka á móti flóttafólki þrátt fyrir efnahagsvanda landsins.

„Útfrá siðferðislegum og hagnýtum sjónarmiðum séð, svo ekki sé talað um að þann smánarblett sem það hefði á ímynd Evrópu og þar af leiðandi áhrif á uppgang öfgasinna, þá verðum við að gera allt til þess að hjálpa flóttafólki,“ segir García-Margallo en hann er staddur í Íran.

Spánn muni ekki skorast undan þessari ábyrgð og taka á móti fjölda flóttafólk. Þó svo staða Spánar sé ekki góð fjárhagslega þá verður hægt að bjóða fólki upp á húsaskjól og félagslega þjónustu. Ekki kom fram í máli hans hversu margir flóttamenn myndu fá hæli á Spáni en talað hefur verið um 14-15 þúsund. 

Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur hvatt ESB til þess að taka á móti um 200 þúsund hælisleitendum hið minnsta. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, mun á miðvikudag greina frá áætlun um móttöku 120 þúsund kvóta-flóttamanna. Frakkar munu taka á móti 24 þúsund og Þjóðverjar 32 þúsund. 

Fimm lögreglumenn meiddust lítillega þegar til átaka kom í miðstöð sem hýsir förufólk sem hefur komið með ólöglegum hætti til Spánar í nótt. Um 40 ólöglegir flóttamenn tóku þátt í átökum við lögreglu í Valencia seint í gærkvöldi og tugir reyndu að flýja úr miðstöðinni. 

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, segir að gagnlaust sé að setja kvóta á það hversu marga flóttamenn ríki ESB taki að sér á meðan ytri landamæri Evrópu eru ótrygg. „Svo lengi sem við getum ekki varið ytri landamæri Evrópu þá tekur því ekki að tala um hversu mörgum við getum tekið á móti,“ segir Orban. 

Ungverjaland, sem er aðildarríki ESB, hefur átt í erfiðleikum við að halda utan um allan þann fjölda flótta- og förufólks sem kemur inn í landið. 

Utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Szijjarto, segir í viðtali við austurríska dagblaðið Der Standard í dag að Ungverjar hafi skráð 167 þúsund ólöglega innflytjendur það sem af er ári. Þar af hafi 150 þúsund sótt um hæli.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka