Utanríkisráðherra Spánar, José Manuel García-Margallo, varar við því deilan um móttöku flóttamanna í Evrópu geti orðið smánarblettur á ímynd Evrópu. Hann segir að Spánn muni taka á móti flóttafólki þrátt fyrir efnahagsvanda landsins.
„Útfrá siðferðislegum og hagnýtum sjónarmiðum séð, svo ekki sé talað um að þann smánarblett sem það hefði á ímynd Evrópu og þar af leiðandi áhrif á uppgang öfgasinna, þá verðum við að gera allt til þess að hjálpa flóttafólki,“ segir García-Margallo en hann er staddur í Íran.
Spánn muni ekki skorast undan þessari ábyrgð og taka á móti fjölda flóttafólk. Þó svo staða Spánar sé ekki góð fjárhagslega þá verður hægt að bjóða fólki upp á húsaskjól og félagslega þjónustu. Ekki kom fram í máli hans hversu margir flóttamenn myndu fá hæli á Spáni en talað hefur verið um 14-15 þúsund.
Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur hvatt ESB til þess að taka á móti um 200 þúsund hælisleitendum hið minnsta. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, mun á miðvikudag greina frá áætlun um móttöku 120 þúsund kvóta-flóttamanna. Frakkar munu taka á móti 24 þúsund og Þjóðverjar 32 þúsund.
Fimm lögreglumenn meiddust lítillega þegar til átaka kom í miðstöð sem hýsir förufólk sem hefur komið með ólöglegum hætti til Spánar í nótt. Um 40 ólöglegir flóttamenn tóku þátt í átökum við lögreglu í Valencia seint í gærkvöldi og tugir reyndu að flýja úr miðstöðinni.
Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, segir að gagnlaust sé að setja kvóta á það hversu marga flóttamenn ríki ESB taki að sér á meðan ytri landamæri Evrópu eru ótrygg. „Svo lengi sem við getum ekki varið ytri landamæri Evrópu þá tekur því ekki að tala um hversu mörgum við getum tekið á móti,“ segir Orban.
Ungverjaland, sem er aðildarríki ESB, hefur átt í erfiðleikum við að halda utan um allan þann fjölda flótta- og förufólks sem kemur inn í landið.
Utanríkisráðherra Ungverjalands, Peter Szijjarto, segir í viðtali við austurríska dagblaðið Der Standard í dag að Ungverjar hafi skráð 167 þúsund ólöglega innflytjendur það sem af er ári. Þar af hafi 150 þúsund sótt um hæli.