Bókstafleg brögð í tafli

Atvikið átti sér stað á hinu vinsælda Imperia-skákmóti.
Atvikið átti sér stað á hinu vinsælda Imperia-skákmóti. AFP

Ítölskum skákmanni hefur verið vísað frá keppni vegna svindls, en það kom í ljós að hann notaði myndavél og Morse-merkjasendingar til að hafa betur gegn andstæðingum sínum. 

Skipuleggjendur mótsins fór að gruna að brögð væru í tafli þegar skákmaðurinn Arcangelo Ricciardi, sem er í 51.366. sæti yfir bestu skákmenn heims, fór að leggja mun sterkari andstæðinga að velli á mótinu. 

Ricciardi er sagður hafa blikkað augunum á afar óvenjulegan máta á meðan hann var með báðar hendur undir handakrikum, að því er segir í frétt á vef BBC.

Þegar dómarinn Jean Coqueraut gekk á hinn 37 ára gamla Ricciardi og bað hann um að að hneppa frá skyrtunni, neitaði Ricciardi að verða við því. Hann var í framhaldinu beðinn um að ganga í gegnum málmleitartæki sem nam hálsfesti undir skyrtunni. Það kom í ljós að hún var með örsmárri myndavél sem var tengd litlu boxi sem hann var með undir handakrikanum. 

Mótshaldarar halda því fram að Ricciardi hafi notað myndavélina til að senda leikina til annars manns sem var með skákforrit í gangi. Sá er grunaður um að hafa sent Ricciardi leiki með Morse-merkjasendingum. 

Coqueraut segir í samtal við ítalska dagblaðið La Stampa, að hann hafi snemma farið að gruna að ekki væri allt með felldu. „Svona frammistaða er ómöguleg í skák,“ sagði hann og bætti við að Ricciardi hefði aldrei staðið upp. Hann sat kyrr í margar klukkustundir með þumlana undir handarkrikum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert