Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að lögbundið kvótakerfi varðandi móttöku flóttafólks, þ.e. hversu marga flóttamenn hvert og eitt ríki Evrópusambandsins eigi að taka á móti, sé „mikilvægt fyrsta skref“ í áætlun ESB til að taka á flóttamannavandanum.
ESB reynir nú að búa til áætlun hvernig best sé að taka á móti þeim gríðarlega mikla straumi flóttafólks sem hefur komið til álfunnar frá Miðausturlöndum og Afríku. Straumurinn náði hámarki um liðna helgi.
Framkvæmdastjórn ESB hyggst greina frá áætlun sinni í þessum málum á morgun, m.a. hvernig 120.000 flóttamönnum verði dreift í ríkjum ESB.
Þýsk stjórnvöld segjast geta tekið við fleiri flóttamönnum í framtíðinni en vilja deila fjöldanum með öðrum þjóðum.
Hingað til hafa Þjóðverjar og Svíar tekið á móti flestu flóttafólki.
Merkel segir að tillögur framkvæmdastjórnar ESB sé „mikilvægt fyrsta skref“ og bætti við að ESB þurfi að setja á laggirnar opið kerfi til að deila með sér þeim sem eigi rétt á því að óska eftir hæli.
Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands, hefur sagt að Þýskaland geti tekið á móti a.m.k. 500.000 flóttamönnum á ári næstu árin.
Þjóðverjar búast við því að rúmlega 800.000 flóttamenn muni sækja um hæli í landinu á þessu ári. Árið 2014 nam fjöldinn um 200.000.