Ríki íslams að búa til efnavopn

Írakskur skriðdreki í Al-Hayakel við jaðar Fallujah í átökum við …
Írakskur skriðdreki í Al-Hayakel við jaðar Fallujah í átökum við vígamenn Ríkis íslam. AFP

Vax­andi áhyggj­ur eru meðal yf­ir­valda í Banda­ríkj­un­um að Ríki íslams fram­leiði efna­vopn í Sýr­landi og Írak.

Banda­rísk stjórn­völd segj­ast hafa orðið vör við að minnsta kosti fjög­ur dæmi um að Ríki íslams hafi notað vopn af sama meiði og sinn­epsgas beggja vegna landa­mæra Íraks og Sýr­lands. Efn­in er að sögn yf­ir­valda notað í duft­formi, og telja Banda­rík­in að Ríki íslam hafi sveit­ir inn­an sinna raða sem sinna ein­göngu því starfi að búa til efna­vopn. Þetta kem­ur fram í frétt á vef BBC.

Talið er að eitrið sé notað til að fóðra hefðbundn­ar sprengj­ur og dreif­ist um allt þegar þær springa, með skelfi­leg­um af­leiðing­um fyr­ir þá sem kom­ast í snert­ingu við það.

Þrjár út­skýr­ing­ar eru tald­ar lík­leg­ar á því hvernig hryðju­verka­sam­tök­in komu hönd­um yfir vopn­in. Sú lík­leg­asta er, að sögn njósna­stofn­ana í Banda­ríkj­un­um, er sú að sam­tök­in fram­leiði efn­in sjálf. Hinar tvær eru að sam­tök­in hafi fundið eitrið, annaðhvort í Írak eða Sýr­landi.

Litl­ar lík­ur eru tald­ar á að efn­in hafi fund­ist í Írak, því þá segja menn að Banda­ríkja­her hefði fundið þau á und­an sam­tök­un­um þegar her­inn réðist inn í landið og á þeim ára­tug sem banda­rísk­ir her­menn fóru um landið. Þá er talið ólík­legt að efna­vopn­in hafi fund­ist í Sýr­landi, því sýr­lensk­um stjórn­völd­um var gert að af­henda öll sín efna­vopn árið 2013 og hótað loft­árás­um yrði ekki staðið við það. Þess vegna er lík­leg­asta skýr­ing­in tal­in sú að sam­tök­in fram­leiði efn­in sjálf, en þau er að sögn ekki erfitt að fram­leiða.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka