Örmagna á langri leið til lífs

Þessi afganska fjölskylda komst heil á húfi til Aþenu
Þessi afganska fjölskylda komst heil á húfi til Aþenu AFP

Fögnuður ríkir meðal flóttafólks þegar það kemst heilu og höldnu til Evrópu en fáir gera sér grein fyrir að landganga á strönd grísku eyjunnar Lesbos er aðeins upphafið að 50 km göngu að næsta bæ. Þar tekur við löng bið eftir skráningu. Ólíklegt er að fólkið fái vott né þurrt á meðan förinni stendur.

Fréttamenn AFP fylgdust með komu sex flóttabáta á fallegri strönd, Skala Sikamineas. Eftir tveggja tíma siglingu frá Tyrklandi er fólkið fegið þegar það kemst á þurrt land.

Er þetta Evrópusambandið?

Margir ákalla Guð þegar þeir skjögra á land, kyssa sandinn og hvern annan. Loksins er ferðalagið að baki.

„Er þetta Evrópusambandið?“ spyr einn forvitinn. Hann veit að svo er en vill fá fullvissu.

Fáir þeirra flóttamanna sem þarna koma að landi gera sér grein fyrir að landgangan markar upphaf maraþongöngu. Því það eru 50 km í helsta bæ eyjunnar og flestir þurfa að fara þangað fótgangandi. En fólki er sama. Það er komið í öruggt skjól.

„Um leið og ég steig fæti niður á þurrt land þá hætti ég að vera þreyttur,“ segir Feras Tahan, sem er 34 ára sýrlensku grafískur hönnuður. Skór hans og buxur eru rennandi blaut.

„Erfiði hlutinn var sjóferðin. Nú þegar við höfum lokið fyrsta hlutanum þá fer þetta að batna,“ segir hann.

Á einum klukkutíma komu bátarnir sex að landi. Fjórir til viðbótar eru að nálgast land. Um borð í hverjum bát eru 40-60 flóttamenn. Flestir þeirra eru Sýrlendingar sem hafa greitt eitt þúsund Bandaríkjadali, 130 þúsund krónur, eða meira fyrir farið yfir hafið frá Tyrklandi.

En heldur er gleði flóttafólksins minni þegar rætt er við það á göngunni löngu til bæjarins Mytilene þar sem það verður að láta skrá sig.

 Engin rúta, ekkert vatn - ekkert

Eftir að hafa gengið tæplega 20 km sést örmögnun á hverju andliti. Auk farangurs eru margir með lítil börn í fanginu og sólin er brennheit.

„Við höfum gengið klukkustundum saman. Það er engin rúta, enginn leigubíll, ekkert vatn, ekkert,“ segir Mohammed Yassin al-Jahabra, 23 ára gamall námsmaður í enskum bókmenntum. Með honum er fjölskylda og vinir, örvæntingin og þreytan skín úr hverju andliti.

Nokkrum klukkustundum fyrr voru þau að fagna því að hafa náð að flýja átökin í heimaborgum sínum Aleppo og Daraa, og héldu að nýtt líf biði þeirra.

Nú eru þau að örmagnast því miðað við hvernig miðar þá tekur það meira en einn dag að komast á leiðarenda. Þann fyrsta af mörgum á leiðinni til Þýskalands, Svíþjóðar og annarra ríkja.

Myrkur er að skella á og þau vilja ekki sofa á veginum með börnin. Nokkrar rútur keyra fram hjá og þrátt fyrir að Sýrlendingarnir vinki til þeirra þá stöðva bílstjórarnir ekki. „Við erum glötuð,“ segir Jahabra.

Fyrr í vikunni höfðu 15 þúsund flóttamenn verið skráðir á einum sólarhring á grísku eyjunni Lesbos. Þar urðu flóttamennirnir strandaglópar og ekkert var í boði annað en ömurlegar aðstæður. En það breytir því ekki að bátarnir halda áfram að streyma til lands yfirfullir af flóttafólki sem vonast til þess að betra líf bíði þeirra. Eða bara líf því yfir 240 þúsund manns hafa látist í Sýrlandi frá því stríðið braust þar út í mars 2011.

Danskir sjálfboðaliðar veita aðstoð

Yfirvöld á Lesbos, þar sem eyjaskeggjar eru 86 þúsund talsins, glíma við vanda sem þau ráða ekki við. Bæði stjórnvöld í Aþenu, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri hafa reynt að veita aðstoð, meðal annars við að keyra flóttafólkið frá ströndinni í bæinn. En fyrir marga er það of seint. Þeir hafa örmagnast á leiðinni.

Þegar flóttafólkið sem fréttamenn AFP hittu á ströndinni kom til lands voru það nokkrir danskir sjálfboðaliðar sem tóku á móti þeim. Aðrir voru þar ekki að fagna komu þeirra eða til að veita þeim aðstoð.

Dönsku sjálfboðaliðarnir eru á eigin vegum. „Við settum upp Facebook síðu og fólk gaf gjafir. Við komum hingað með nokkur þúsund evrur,“ segir Marie Bach, tvítugur sjálfboðaliði, sem gaf fólkinu brauð, vatn og banana þegar það kom rennblautt í land.

Móðir hennar gaf henni pening í útskriftargjöf og hún ákvað að nota peninginn til þess að fara til Lesbos og aðstoða.

Frá Mytilene á Lesbos
Frá Mytilene á Lesbos AFP
Sofið við höfnina í Mytilene
Sofið við höfnina í Mytilene AFP
Flóttamenn grafa flóttamann sem lifði ekki af ferðalagið til Mytilene
Flóttamenn grafa flóttamann sem lifði ekki af ferðalagið til Mytilene AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka