54% þeirra sem styðja repúblikanann Donald Trump til forseta halda að Barack Obama Bandaríkjaforseti sé múslími. Ný könnun CNN sjónvarpsstöðvarinnar sýnir að þó að enn séu ákveðnar ranghugmyndir hjá bandarísku þjóðinni um fæðingarstað og trúarbrögð forsetans hefur dregið verulega úr þeim. Nú segja um 80% þjóðarinnar að Obama sé fæddur í Bandaríkjunum. Obama fæddist á Hawaii og er kristinn.
Ranghugmyndirnar eru algengari hjá Repúblikönum. Um 29% Bandaríkjamanna segja Obama múslíma en 43% Repúblikana telja svo vera. 54% stuðningsmanna Trump halda að Obama sé múslími.
Árið 2011 er Trump fór að velta forsetaframboði fyrir sér velti hann einnig upp spurningum um fæðingarstað Obama og krafðist þess að fæðingarvottorð hans yrði birt opinberlega. Obama birti vottorðið þetta sama ár og á því kom fram að hann væri fæddur á sjúkrahúsi í Honolulu 4. ágúst árið 1961.
Frétt CNN um skoðanakönnunina.