Austurrískar lestir eru hættar að ganga til Þýskalands. Lestirnar eru ríkisreknar. Er þetta gert vegna hins gríðarlega flóttamannastraums sem nú flæðir inn til Evrópu.
Félagið sem rekur lestirnar segja að frá og með kl. 15 í dag muni þær ekki ganga til Þýskalands. Fréttirnar koma í kjölfar þeirra tíðinda að Þjóðverjar ætli sér að herða eftirlit við landamæri sín.
Síðdegis í dag tilkynnti þýski innanríkisráðherrann Thomas de Maiziere að Þýskaland myndi ekki lengur leyfa flóttafólki að velja sér hvaða Evrópuland það vill fara til. Þar með hefur verið tekin til baka ákvörðun sem varð til þess að metfjöldi flóttafólks streymdi einmitt til Þýskalands.
Hælisleitendur verða að skilja að „þeir geta ekki valið sér ríki þar sem þeir leita verndar,“ sagði ráðherrann á fundi nú síðdegis. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins á fyrsta landið sem hælisleitandi kemur til að sjá um umsókn hans um hæli. En Þýskaland hafði breytt út af þessu þegar sýrlenskir flóttamenn voru annars vegar.
Í fyrstu verður landamæraeftirlit milli Þýskalands og Austurríkis hert. Er þetta gert til að stemma stigu við þeim vaxandi straumi flóttafólks sem kemur til Þýskalands. Um 12 þúsund flóttamenn komu þangað um helgina.
Þýski innanríkisráðherrann hvetur stjórnvöld annarra Evrópusambandslanda til að gera meira til að aðstoða. Hann hvetur þau til að fara að reglum og ítrekaði að það flóttafólk verði að sækja um hæli í því landi sem þeir koma fyrst til. Margir flóttamenn hafa neitað að skrá sig í löndum á borð við Grikkland og Ungverjaland því þeir óttast að þá fái þeir ekki hæli í Þýskalandi eða öðrum ríkjum ESB.
Ungverski forsætisráðherrann, Viktor Orban, fagnar ákvörðun Þjóðverja um að herða á ný landamæraeftirlit. Hann segir þetta „nauðsynlega“ aðgerð til að „vernda evrópsk gildi“ nú þegar flóttamenn streyma til álfunnar.
„Við sýnum Þjóðverjum mikinn skilning varðandi þessa ákvörðun og styðjum þá að fullu,“ segir hann í samtali við þýska dagblaðið Bild. „Við skiljum að þetta var nauðsynlegt til að vernda þýsk og evrópsk gildi.“
Evrópusambandið segir að ákvörðun Þýskalands um að herða tímabundið landamæraeftirlit sitt undirstriki þá nauðsyn að aðildarlönd sambandsins deili ábyrgðinni við að taka við þúsundum flóttafólks.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, upplýsti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, um ákvörðunina sem byggð er á undanþágu frá Schengen-samstarfinu.
„Ákvörðun Þýskalands í dag undirstrikar þá nauðsyn að samþykkja aðgerðir sem framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til með það að markmiði að ná tökum á flóttamannavandanum,“ segir í yfirlýsingu frá framkvæmdastjórninni.
Juncker sagði í ræðu í síðustu viku að koma þyrfti 160 þúsund flóttamönnum semkomið hafa til Grikklands, Ungverjalands og Ítalíu fyrir með því að setja kvóta á aðildarlöndin.
Innanríkis- og dómsmálaráðherrar ESB-landa munu funda í Brussel á morgun til að skoða aðgerðaráætlunina.
Framkvæmdastjórnin bendir á að samkvæmt Schengen-samkomulaginu, sem tók gildi árið 1995, geti aðildarlönd við sérstakar aðstæður hert landamæraeftirlit sitt. Slíkt ástand sé nú uppi í Þýskalandi en flóttamenn streyma þangað frá öðrum löndum ESB. Samkvæmt Schengen-samkomulaginu eiga hælisleitendur að fá mál sín tekin fyrir í þeim löndum sem þeir koma fyrst til.