Lögreglan í München í Þýskalandi segir að borgin sé komin að þolmörkum eftir að 12.000 flóttamenn komu til borgarinnar í gær. Talsmaður lögreglunnar segir að von sé á nokkur hundruð til viðbótar í dag, og því ljóst að borgin sé komin í efri mörk þess sem hún þolir.
Þessi mikli fjöldi hefur komið borgaryfirvöldum í opna skjöldu en þau hafa hvatt önnur sveitarfélög til að leggja sitt af mörkum. Margir flóttamenn líta á Þýskaland sem fyrirheitna landið og hafa tekið stefnuna þangað í leit að betra lífi.
Í gær voru haldnir samstöðufundir með flóttafólki víða í Evrópu, þar á meðal í Reykjavík, en margir vilja bjóða flóttafólk velkomið. Aðrir hópar hafa einnig komið saman og lýst andstöðu við komu flóttamanna og hvatt þá til að fara aftur heim.
Hingað til hafa langflestir flóttamenn farið til Þýskalands, en þarlend yfirvöld hafa tekið á móti 450.000 flóttamönnum á þessu ári. Flóttafólk hefur fagnað ákvörðun Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að opna landamærin fyrir flóttafólki. Hún hefur einnig verið harðlega gagnrýnd fyrir að gera glappaskot sem muni draga dilk á eftir sér í langan tíma.
„Við vitum ekki lengur hvað við eigum að gera við flóttafólkið,“ sagði Dieter Reiter, borgarstjóri München, í gær. Margir óttast að fólkið þurfi að hafast við utandyra næstu daga og nætur.
„München og Bæjaraland geta ekki tekið á þessu stóra málin án aðstoðar,“ sagði talskona yfirvalda í Bæjaralandi. Hún bætti við að borgin ætti erfitt með að finna skýli fyrir allt fólkið.
Margir tóku vel á móti flóttafólkinu þegar það kom til borgarinnar í gær. Þeir voru hins vegar mun færri en voru fyrir nokkrum dögum þegar klappað var fyrir flóttafólki og því gefið matvæli og börnum leikföng.