Þýsk stjórnvöld hafa ákveðið að herða eftirlit við landamærin til að taka á þeim gríðarlega straumi flóttafólks sem hefur komið til landsins að undanförnu. Þetta kemur fram í þýskum og austurrískum fjölmiðlum.
Ekki liggur fyrir á þessari stundu um hvernig aðgerðir sé að ræða, að því er segir á vef BBC.
Í gær komu ríflega 13.000 flóttamenn til borgarinnar München. Varakanslari Þýskalands sagði að Þýskaland væri komið að þolmörkum.
Þýska blaðið Bild og austurríska blaðið Kronen Zeitung segja að eftirlit verði hert við landamæri Þýskalands að Austurríki.
Þýsk stjórnvöld búast við að um 800.000 flóttamenn og hælisleitendur muni koma til landsins í ár.
Der Spiegel segir að Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, muni tilkynna þetta með formlegum hætti síðar í dag. Í síðasta mánuði sagði hann að Schengen-samstarfið væri í uppnámi.
Kronen Zeitung segir að þýska lögreglan muni hefja eftirlit til að kanna þegar í stað hverjir eigi rétt á því að sækja um hæli. Ekki liggur fyrir hvernig verði staðið að þeirri framkvæmd.