Rétt um fjórum mínútum eftir að ákveðið var að loka landamærunum milli Þýskalands og Austurríkis gengu þrír sýrlenskir karlmenn sem voru á leið frá Austurríki til Þýskalands fram á lögreglumenn í Þýskalandi.
„Má ég sjá vegabréfið þitt, takk?“ spurði þýskur alríkislögreglumaður, sem stöðvaði mennina þrjá við Freilassing, þar sem mikill fjöldi flóttamanna hefur farið gegnum Salzburg til Bayern í Þýskalandi.
Mönnunum þremur var sagt að bíða við veginn meðan lögreglumennirnir ákváðu örlög þeirra. „Við höfum gengið gegnum Evrópu í 22 daga,“ sagði hinn 27 ára gamli Ali Ahaj, sem þjáist af astma og átti bágt með að ná andanum.
Hann tók astmapúst og lýsti því fyrir fréttamanni AFP hvernig þeir hefðu flúið heimili sín í austurhluta Sýrlands í borginni Raqqa eftir að vígamenn Ríkis íslams tóku völdin í borginni. Ganga mannanna gegnum Evrópu hófst í Grikklandi þar sem þeir tóku rútu gegnum Serbíu, Makedóníu og Ungverjaland.
Þegar þeir komu með lest til Salzburgar í Austurríki virtust landamærin við Þýskaland vera óbærilega nálægt. Þeir vonuðust til að komast alla leið til Stuttgart. „Við héldum að Þýskaland væri eina landið þar sem yrði komið fram við okkur eins og manneskjur,“ sagði hælisleitandinn.
Þeir vissu hins vegar ekki að þeir komu á þýska grundu á sama tíma og stjórnvöld í Berlín ákváðu að taka aftur upp landamæraeftirlit milli Þýskalands og Austurríkis eftir að þau játuðu að landið gæti ekki tekið á móti öllum þeim flóttamönnum sem væru á leið inn í landið.
Áður höfðu Þjóðverjar slakað á reglum um hælisleitendur frá Sýrlandi, en þær hafa nú verið hertar á ný. Lögregla í Þýskalandi er sögð hafa mætt þessari stefnubreytingu með ótrúlegri skilvirkni þar sem tugir lögreglubíla voru komnir að landamærunum á örskammri stundu var eins og lögreglumennirnir væru ekki alveg vissir um hvernig þær ættu að taka mönnunum.
„Halló, við erum hér með þrjá Sýrlendinga, hvað eigum við að gera við þá,“ sagði lögreglumaður í talstöðina sína, klukku tíma eftir að Ali Ahaj og 16 ára bróður hans Maged og 28 ára frænda þeirra Achmed Mustafa var sagt að sitja og bíða.
Þrátt fyrir að útlit væri fyrir að þeir kæmust ekki til Þýskalands sögðu mennirnir að þeir væru ekki hræddir. „Þetta eru bestu lögreglumennirnir sem við höfum mætt hingað til,“ sagði Ali Ahaj eftir að hafa sýnt þeim sýrlenska vegabréfið þriðja sinni. „Fyrsti lögreglumaðurinn sem ég mætti sagði: „Velkominn til Þýskalands.“ Síðan brosti hann,“ sagði Ali Ahaj.
Um 90 mínútum eftir að þeir rákust á lögreglumennina var fundi þeirra lokið. Lögreglumönnunum var sagt að vísa þeim að næstu móttökustöð fyrir flóttamenn, þar sem mennirnir þrír gætu loksins hvílt lúin bein.
En fyrir lögreglumennina var nóttin rétt að byrja. Næsti maður sem þeir stöðvuðu var ítalskur ökumaður, sem reyndist hafa átta Sýrlendinga í bíl sínum.