20 börn hurfu sporlaust í Malmö

Lögreglan ræðir við flóttamenn á aðalbrautarstöðinni í Stokkhólmi.
Lögreglan ræðir við flóttamenn á aðalbrautarstöðinni í Stokkhólmi. AFP

20 börn á flótta sem komu til aðalbrautarstöðvarinnar í Malmö í Svíþjóð án fylgdar eru horfin sporlaust. „Við vitum ekki hver tók þau,“ segir Setareh Yousefi, starfsmaður útlendingaeftirlitsins, í samtali við Aftonbladet.

Á meðal þeirra flóttamanna sem hafa undanfarið komið til Svíþjóðar eru börn og unglingar sem ekki eru í fylgd með fullorðnum.

Mörg þeirra hverfa svo án þess að vitað sé hvert þau fara. Ekki er vitað með vissu hversu mörg án fylgdar hafa komið til Svíþjóðar og svo horfið í kjölfarið enda ekki búið að skrá þau í mörgum tilvikum áður en þau hverfa. 

Yousefi segir því ekki vitað hvort að ættingjar sæki börnin eða hvort að þau fari á brott með ókunnugum. 

Í gær ákvað lögreglan í Stokkhólmi að girða af brautarpallinn þangað sem von var á lestum með flóttamönnum um borð. Lögreglan hafði fengið veður af því að villandi upplýsingum hefði verið komið til flóttafólksins. Því hafi verið ákveðið að starfsmenn útlendingaeftirlits, lögreglu og félagsþjónustunnar myndu taka á móti flóttafólkinu við komuna til borgarinnar. Þá hafa Svíar einnig brugðið á það ráð að dreifa upplýsingum á ýmsum tungumálum í lestunum um hvernig tekið sé á móti flóttamönnum í Svíþjóð og hvernig best sé fyrir þá að bera sig að við skráningu o.s.frv.

Útlendingaeftirlitið segist hafa fengið veður að því að flóttamönnum sé sagt að sækja ekki um hæli í Svíþjóð og fela sig fyrir yfirvöldum. Því veki það sérstakan ugg að um 20 börn, sem komu án fylgdar til Malmö, séu nú horfin sporlaust. Yfirmaður félagsþjónustunnar segir að starfsmenn hafi séð fólk nálgast flóttabörnin, áður en búið var að koma málum þeirra í farveg.

Hún segir að um 40-50 börn hafi komið án fylgdar til Malmö. Í fyrrinótt hafi 20 þeirra horfið sportlaust. Aka átti börnunum frá lestarstöðinni og á gististað. En þangað komu þau aldrei. „Við vitum ekki hvað varð um þau,“ segir Annelie Larsson, yfirmaður félagþjónustunnar. Hún vonar að um misskilning sé að ræða, að fólk viti ekki betur og muni skila börnunum til skráningar. Hún segir að nú séu þau boð látin út ganga að það sé ólöglegt að taka börn og hafa hjá sér með þessum hætti.

Flóttafólk á brautarstöðinni í Stokkhólmi í fyrradag. Þangað kom það …
Flóttafólk á brautarstöðinni í Stokkhólmi í fyrradag. Þangað kom það frá Malmö. AFP
Frá aðalbrautarstöðinni í Malmö.
Frá aðalbrautarstöðinni í Malmö. Af Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert