Hjartnæmir endurfundir eftir 70 ára aðskilnað

Endurfundirnir voru tilfinningaþrungnir.
Endurfundirnir voru tilfinningaþrungnir. Skjáskot af YouTube

Tvíburarnir George Skrzynecky og Lucian Poznanski fæddust í Þýskalandi undir lok seinni heimstyrjaldarinnar, stuttu eftir að móðir þeirra slapp úr vinnubúðum nasista.

Móðir þeirra, sem var pólskur kaþólikki, veiktist alvarlega og gat ekki séð um syni sína. Í kjölfarið var farið með drengina til Póllands og voru þeir ættleiddir af sitthvorri fjölskyldunni. Árum saman  vissu þeir ekki af tilveru hvors annars en á síðasta ári hittust þeir í fyrsta sinn í Póllandi.

„Í hjarta mínu hafði ég alltaf á tilfinningunni að ég ætti tvíburabróður,“ sagði Lucian við fréttamanninn Dan Johnson sem festi endurfundi bræðranna, sem nú eru sjötugir, á filmu. „Mér er sama hvort ég vinni í lottóinu, ég vil bara bróður minn mér við hlið.

Gaf aldrei upp vonina

Lucian vissi ekki að hann væri ættleiddur fyrr en hann var kvaddur í herinn en þá sögðu foreldrar honum hið rétta. Segist hann hafa verið miður sín en að foreldrar hans hafi búið honum ástríkt heimili.

 George var 17 ára fann hann skjöl sem sýndu að hann væri ættleiddur. Þá komst hann einnig að því að hann ætti tvíbura. Þessar uppgötvanir ollu því að samband hans við móðurina sem ættleiddi hann versnaði og ákvað hann að flýja Pólland.

Á sjöunda áratugnum bað George Rauða krossinn um að finna bróður sinn en ekkert gekk. Hann flutti til Bandaríkjanna og hóf nýtt líf.

„Ég missti aldrei vonina, ég hugsaði alltaf „Einn daginn“. Þó ég vissi aldrei hvenær það yrði hugsaði ég að einn daginn myndi ég finna bróður minn.

Lucian hefur búið í Póllandi alla sína ævi en George ferðaðist frá heimili sínu í Kaliforníu til að hitta bróður sinn. Lucian fékk upplýsingar um raunverulega móður sína í fyrsta skipti í fyrra og komst þá að tilveru tvíburabróður síns. Segist George ekki hafa getað hætt að gráta þegar hann heyrði af Lucian í fyrsta skipti.

Bræður að eilífu

Bræðurnir voru báðir tárvotir um augun þar sem þeir ræddu við Johnson áður en þeir hittust í fyrra á Chopin flugvellinum í Varsjá,.

„Ég er svo spenntur að sjá hann og vona að við verðum mjög nánir héðan í frá,“ sagði George.
„Ég er mjög ánægður og get ekki beðið eftir að faðma hann, reka honum rembingskoss.“

„Þarna er hann, litli bróðir minn. Velkominn, velkominn!“ sagði Lucian þegar hann tók á móti bróður sínum,vopnaður stærðarinnar vendi af rauðum og hvítum rósum.

Bræðurnir féllust samstundis í faðma og eins og George hafði lofað kyssti hann bróður sinn, alls þrisvar, á kinnarnar, tárvotur af gleði.

Eftir að bræðurnir höfðu náð að eiga nokkur orð við hvorn annan sagði George við fréttamenn að þeir litu til framtíðar enda væri lítið við fortíðinni að gera. „Við höfum tíma til að fagna og líta til framtíðar. Við erum bræður að eilífu.“

Faðirinn var bandarískur

Rauði krossinn hefur nú fundið frekari gögn um bræðurna og komist að því að faðir þeirra var bandarískur hermaður sem sneri aftur til Bandaríkjanna áður en þeir fæddust.

Þeir segja það hafa komið sér á óvart enda hafði Lucian ýmist verið sagt að hann væri þýskur eða pólskur.

„Ég hafði alltaf þessa tilfinningu, að ég þyrfti að komast til Bandaríkjanna. Og nú veit ég afhverju,“ sagði George klökkur yfir gögnunum um föður sinn.  Auk þeirra hafa fundist gögn um móður þeirra, Elizabeth sem sýna að hún leitaði þeirra eftir að henni batnaði. Hún komst að því að þeir hefðu verið ættleiddir en var sagt að hún gæti ekki fengið þá aftur, þrátt fyrir að hún hefði ekki verið látin vita af ættleiðingunni. Hún lést árið 1952.

„Þegar ég sé hana núna sé ég mig í henni,“ sagði Lucien um mynd af móður sinni. „Nú þegar ég hef komist að öllum sannleikanum græt ég fyrir móður mína. Ég græt fyrir bróður minn en ég er hamingjusamur þar sem við erum saman.“

George tekur undir. „Það besta við þetta allt er að við fundum hvorn annan. Eftir svona margra ára aðskilnað.“

Endurfund bræðranna má sjá í myndbandinu hér að neðan.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/o0G0Eub6YmY" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert