Pútín hringdi í Elton John

Elton John.
Elton John. AFP

Vladimir Pútin, forseti Rússlands, hefur haft samband við tónlistarmanninn Elton John eftir að sá síðarnefndi sagði að hann vildi ræða við forsetann um viðhorf hans gagnvart réttindum hinsegin fólks. Í viðtali við BBC um helgina kallaði John núverandi viðhorf for­set­ans fá­rán­legt.

Fyrri frétt mbl.is: Viðhorf Pútíns „fáranlegt“

John þakkaði forsetanum í færslu á Instagram í dag fyrir að hafa haft samband við hann í gegnum síma. „Ég hlakka til að hitta þig í eigin persónu til þess að ræða réttindi hinsegin fólks í Rússlandi,“ skrifaði John á Instagram. Forsetaskrifstofan í Rússlandi hefur hinsvegar ekki staðfest að mennirnir ætli að funda en staðfesti að þeir hefðu talað saman.

Það var harðlega gagnrýnt árið 2013 þegar að rúss­neska þingið samþykkti lög sem heim­il­ar sak­sókn gegn ein­stak­ling­um sem „ýti und­ir sam­kyn­hneigðri hegðun meðal ung­menna“. John gagn­rýndi þetta sem og um­mæli sem Pútín lét falla í fyrra, er hann gaf í skyn að sam­kyn­hneigðir beini spjót­um sín­um að börn­um. 

Samkvæmt frétt BBC líta sumir sérfræðingar svo á að útspil Pútins, að hringja í John, sé tilraun til þess að bæta ímynd sína í Vesturlöndum en í lok mánaðarins mun Pútin tala á þingi Sameinuðu þjóðanna í New York.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert