„Vil ekki tala við hana aftur“

Mæðgurnar Lisa Borch og Tine Holtegard.
Mæðgurnar Lisa Borch og Tine Holtegard. Skjáskot/BT

Tvíburasystir Lisu Borch, sextán ára danskrar stúlku sem hlaut í gær níu ára fangelsisdóm fyrir að myrða móður sína í október á síðasta ári, var eitt af lykilvitnunum í málinu.

Hún var meðal annars látin greina vandlega frá sambandi mæðgnanna, Tinu Holtegaard og Borch. Systirin var alveg viss í sinni sök þegar hún bar vitni fyrr í þessum mánuði, Borch myrti móður þeirra.

Fyrrverandi kærasti Borch, Bakhtiar Mohammed Abdullah, sem er 29 ára og frá Írak hlaut 13 ára fangelsisdóm. Honum verður vísað úr landi þegar hann hefur afplánað dóminn. Morðið hefur vakið mikla athygli í Danmörku og víðar.

Saksóknari fór fram á níu til tíu ára fangelsi yfir stúlkunni og tólf til fjórtán ára fangelsi yfir Abdullah. Dönskum hegningarlögum var breytt árið 2010 og því er hægt að dæma manneskju sem ekki var orðin átján ára þegar brotið var framið í meira en átta ára fangelsi. 

Frétt mbl.is: Stúlkan dæmd í 9 ára fangelsi

Viss um að systir hennar sé morðinginn

„Það fyrsta sem ég hugsaði var að Lisa gæti ekki látið sér detta í hug að gera eitthvað þessu líkt. Fyrst hélt ég að Abdullah hefði gert þetta með hjálp systur minnar en tel ég að það hafi verið öfugt,“ sagði tvíburasystrin. Hún virtist róleg og nokkuð viss í sinni sök þegar hún greindi frá sinni afstöðu í réttarsalnum, að sögn blaðamanns Berlinske Tidende.

Það var þann 8. október á síðasta ári sem Tine Holtegard vaknaði við að dóttir hennar var að stinga hana með hníf í brjóstið á heimili þeirra í Kvissel á Norður-Jótlandi í Danmörku. Borch hringdi síðar eftir aðstoð Neyðarlínunnar.

Strax daginn eftir fór lögreglu að gruna að ekki væri allt með felldu, handtók stúlkuna og voru hún og kærasti hennar úrskurðuð í gæsluvarðhald seinna um daginn.

Mæðgurnar rifust á hverjum degi

Mæðgurnar deildu oft um vinskapur og ástarsamband hinnar fimmtán ára Borch og hins 28 ára Abdullah og lýsti systirin andrúmsloftinu á heimilinu. „Þær rifust mikið. Á hverjum degi. Það var af því að móðir mín vildi ekki að hún hitti Abdullah,“ sagði hún.

Nokkrum mánuðum fyrir morðið ákvað hún að flytja út af heimilinu þar sem hún bjó ásamt móður sinni, tvíburasystur og stjúpföður.

„Það var vegna þess að systir mín og mamma rifust svo mikið. Það var bara of mikið að vera heima og upplifa allar þessar deilur,“ sagði tvíburasystirin sem hefur ekki talað við systur sína eftir morðið.

Áður voru þær afar nánar og deildu öllu hvor með annarri, sorg og gleði. „Ég vil ekki tala við hana aftur og ég vil ekki hafa samband við hana. Það er vegna þess sem hún hefur gert.“ Þessi orð kölluðu fram tár hjá systur hennar sem sat einnig í réttarsalnum og þurrkaði tárin úr augunum með handabökunum.

Frétt mbl.is: 16 ára stúlka myrti móður sína

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert