Flóttafólk hóf för frá Serbíu yfir til Króatíu í dag eftir að Ungverjaland lokaði landamærum sínum og önnur ríki gripu til þess ráðs að herða landamæraeftirlit vegna þess mikla fjölda flóttafólks sem nú streymir til og um Evrópu.
Þrýstingur á Evrópusambandið að finna lausn á vandanum eykst, en aðildarríki eru ósammála um leiðir og Schengen-samstarfið mögulega í uppnámi.
Lítill hópur kvenna og barna ferðaðist yfir landamærin til Króatíu snemma í morgun, en á eftir þeim fylgdu um 300 Sýrlendingar og Afganir. Fólkið er sagt leita leiða framhjá Ungverjalandi á för sinni til vesturhluta Evrópu.
Zoran Milanovic, forsætisráðherra Króatíu, hefur gagnrýnt gaddavírsgirðinguna sem stjórnvöld í Ungverjalandi hafa reist á landamærunum að Serbíu og segir hana óásættanlega. Hann sagði að flóttafólkið fengi að ferðast óhindrað um landið; í átt að Slóveníu, Austurríki og girðingalausum suðvesturhluta Ungverjalands.
„Við erum reiðubúin til að taka á móti og leiðbeina þessu fólki; trú þeirra og litarháttur skiptir engu máli, þangað sem það vill fara - til Þýskalands og Skandinavíu,“ sagði Milanovic á króatíska þinginu í dag.
Fréttaritarar AFP sáu aðra stefna í átt að svæðum þar sem enn er að finna jarðsprengjur úr Balkanskagastríðinu, eftir að hafa átt viðkomu í serbneska bænum Sid.
„Við heyrðum að Ungverjaland væri lokað, þannig að lögregla sagði okkur að koma þessa leið,“ sagði hinn 35 ára Amadou frá Máritaníu í samtali við AFP.
Hundruðir sátu fastir við girðingu Ungverja í gær, en forsætisráðherra landsins, íhaldsmaðurinn Viktor Orban, hefur í hyggju að reisa aðra slíka meðfram landamærunum við Rúmeníu.
Stjórnvöld í Búdapest sögðu girðinguna hafa sannað gildi sitt, en lögregla hefur þegar handtekið nokkurn fjölda fólks eftir að ný lög tóku gildi eftir helgi sem beint er gegn ólögmætri för yfir landamærin. Brot varða allt að þriggja ára fangelsi.
Girðingin og lögin eru þáttur í viðleitni Orban til að stemma stigu við straumi flóttamanna um landið, en flestir eru þeir á leið til Þýskalands og Svíþjóðar.
Árangurinn sem girðingin hefur skilað hefur vakið áhyggjur í Serbíu um að aukin fjöldi flóttamanna muni nú leita þangað. Aleksandar Vulin, sem fer með málefni hælisleitenda í ríkisstjórn Serbíu, kallaði eftir því í samtali við AFP að Ungverjaland opnaði landamæri sín á ný, a.m.k. fyrir konum og börnum.
Hundruðir til viðbótar eru fastir í landamæraborginni Edirne í Tyrklandi, þar sem lögregla stöðvaði fólkið frá því að ferðast áfram til Grikklands. Þá hafði fjöldi fólks næturdvöl við samgöngumiðstöð í Istanbúl aðra nóttina í röð, eftir að hafa verið neitað um að kaupa miða til Edirne.
„Þeir geta ekki dvalið hér,“ sagði Dursun Ali Sahin, ríkisstjóri Edirne, í samtali við sjónvarpsstöðina NTV. „Kannski leyfum við þeim að vera hér í tvo eða þrjá daga, en svo verða þeir að fara,“ sagði hann um flóttamennina, sem flestir koma frá Sýrlandi.
Afstaða Ungverjalands hefur verið harðlega gagnrýnd, en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sagt að aðgerðir þarlendra stjórnvalda brjóti mögulega gegn Flóttamannasáttmálanum frá 1951.
Evrópuráðið hefur sömuleiðis sagst hafa áhyggjur af nýrri löggjöf landsins og hefur sagst munu kalla eftir skýringum frá Orban.
Rúmenía, sem er meðal aðildarríkja Evrópusambandsins en á ekki aðild að Schengen-samstarfinu, er meðal þeirra ríkja sem hafa gagnrýnt stjórnvöld í Ungverjalandi, en þarlend yfirvöld segja landamæragirðinguna umdeildu ekki í takt við „anda Evrópu“.
Önnur ríki hafa þó einnig gripið til aðgerða til að reyna að koma hömlum á straum flóttamanna frá Sýrlandi, Afganistan og ýmsum Afríkuríkjum. Þýskaland, Austurríki og Slóvakía viðhafa nú vegabréfaeftirlit á landamærum sínum, og stjórnvöld í Póllandi og Hollandi eru sögð velta því fyrir sér að fara að dæmi þeirra.
Ráðstöfunin hefur vakið nokkrar áhyggjur meðal ökumanna flutningabifreiða í Þýskalandi, sem benda m.a. á að eftirlitið hafi í för með sér aukinn kostnað.
Pólitískt séð er eitt helsta áhyggjuefnið framtíð Schengen-samstarfsins, sem margir Evrópusinnar álíta jafn mikilvægt og evrusamstarfið. Með því að fella niður landamæraeftirlit og draga úr skriffinsku átti að efla viðskipti milli landanna og styrkja hugmyndina um sameinaða Evrópu.
Ákvörðun stjórnvalda í Berlín um að herða vegabréfaeftirlit á landamærunum að Frakklandi þykir áfall fyrir samstarfið, en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og kollegi hennar í Austurríki, Werner Faymann, hafa kallað eftir ráðstefnu um málið í næstu viku.
Angela Merkel defends Germany's handling of refugee influx http://t.co/Vkc42RgoPe
— The Guardian (@guardian) September 15, 2015
„Við erum að renna út á tíma,“ sagði Merkel og hvatti til þess að menn létu af erjum sem hafa geisað frá því að löndin austar í álfunni neituðu að samþykkja flóttamannakvóta á fundi í síðustu viku.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur sagt að hann muni taka ákvörðun um ráðstefnu á fimmtudag, en til stendur að innanríkisráðherrar fundi næsta þriðjudag í tilraun til að finna lausn á kvótaumræðunni.