Tveir breskir ferðamenn sluppu naumlega er 40 tonna hnúfubakur stökk upp úr sjónum og lenti ofan á kajak sem þau voru í.
Tom Mustill og Charlotte Kinloch voru að róa á kajak í Monterey-flóa í Kaliforníu er hvalurinn stökk skyndilega upp úr sjónum rétt fyrir framan þau. Hann lenti svo á bát þeirra og kaffærði hann og þau þar með.
Sjónarvottar segjast hafa óttast um líf parsins er þau hurfu í hafið. En ótrúlegt en satt þá sluppu þau án þess að fá skrámu. Ein beygla kom þó í kajakinn.
Í viðtali við Telegraph lýsir parið reynslu sinni. Kinloch segir augnablikið er hún sá hvalinn hafa verið hræðilegt. Þetta hafi verið eins og bygging væri að hrynja ofan á þau. „Þetta var eins og að lenda í snjóflóði, eins og að strætisvagn væri á leiðinni ofan á okkur,“ segir hún.
Mustill er vanur því að vera í námunda við villt dýr en hann starfar sem dýralífsljósmyndari. Hann segist enn ekki trúa því að hann hafi lifað þetta af.
„Ég man að ég kom aftur upp á yfirborðið og hugsaði: Hvers vegna dó ég ekki?“ Hann segist hafa hugsað að hann hlyti að vera alvarlega slasaður, en væri of dofinn til að finna sársaukann.
Parið hafði verið þrjár klukkustundir í kajakferðinni og séð marga hvali í fjarlægð. Þau voru á leið í land er hnúfubakurinn stökk á þau.