Lík fjögurra ára sýrlenskrar stúlku skolaði að vesturströnd Tyrklands í dag, samkvæmt því sem fram kemur í fjölmiðlum þar í landi. Fyrir nokkru vöktu myndir af líki drengsins Aylan Kurdi gríðarleg viðbrögð um allan heim. Lík hans rak einnig á land við Tyrkland.
Enn er ekki búið að bera kennsl á stúlkuna. Líkið fannst á strönd við bæinn Aegan eftir að bátur með 15 sýrlenskum flóttamönnum á leið til grísku eyjunnar Chios sökk.
Tyrknesku strandgæslunni tókst að bjarga fjórtán sem voru um borð, þeirra á meðal átta börnum. Fólkið hafði komist um borð í gúmmíbát. Stúlkan var sú eina úr hópnum fórst.
Aylan Kurdi var meðal flóttamanna um borð í báti á leið til grísku eyjunnar Kos. Báturinn sökk. Mikill þrýstingur skapaðist í kjölfar birtinga mynda af líki hans á Evrópuþjóðir að bregðast við flóttamannavandanum.
Enn hefur engin ákvörðun verið tekin um hvernig Evrópusambandsríkin ætli að taka saman á vandanum en á hverjum degi koma mörg þúsund flóttamenn til Evrópu.
Tyrkneski aðstoðarforsætisráðherrann segir að tyrknesku strandgæslunni hafi tekist að bjarga meira en 53 þúsund flóttamönnum úr sökkvandi bátum það sem af er þessu ári. 274 hafa drukknað í sjónum innan lögsögu Tyrklands á sama tíma.