Hótunarbréf frá talibönum getur auðveldað Afgönum að fá hæli í Evrópu segir Ahmadzia Abbasi en hann fékk líflátshótunarbréf í apríl frá talibönum í heimalandinu. „Þetta bréf er mín mesta von - mín eina von - um að fá hæli,“ segir hann í samtali við fréttamann AFP í Kabúl.
Hann lítur á bréfið sem aðgangsmiða að betra lífi í Evrópu. Talibanar senda oft slík bréf, sem kallast „næturbréf“, þar sem viðkomandi er hótað ofbeldi og dauða til þeirra sem talibanar vilja hræða með hótunum.
„Allir sem lesa þetta sjá að líf mitt er í mikilli hættu,“ segir Abbasi, 31 árs aðgerðarsinni frá Logar héraði í Afganistan. Í bréfinu er honum hótað fyrir að styðja heiðingjastjórn og að hann verði hálfhöggvin. Bréfið var fest á hurð heimilis hans í apríl sl.
Abbasi segir ástæða hótunarinnar sé sú að hann hafi stutt menntun stúlkna í þorpinu sem hann býr í og talibanar líti á það sem ögrun.
Hann hefur leitað til sendinefndar Evrópusambandsins í Afganistan um að fá hæli innan sambandsins en á von á því að sú leið verði þyrnum stráð enda mikill fjöldi Afgana á flótta.
Tæplega 78 þúsund Afganar sóttu um hæli í Evrópu á fyrstu sex mánuðum ársins sem er ríflega þrisvar sinnum fleiri en á sama tímabili í fyrra. Ekki hafa svo margir Afganar flúið land síðan árið 2001 samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Afganar eru annars stærsti hópurinn sem flýr til Evrópu á eftir Sýrlendingum.
Þar sem hótunarbréfin geta komið sér vel á flóttanum þá ganga þau kaupum og sölum. Heshmat, 24 ára, keypti sitt bréf á 80 Bandaríkjadali af falsara sem vinur hans mælti með. Sá hafði komist til Þýskalands með svipað bréf.
Hann segist ekki vita hvort falsarinn tengist talibönum beint en að bréfið líti mjög raunverulega út.
„Smyglararnir sem munu fara með mig til Svíþjóðar segja að Evrópa sé nú opin fyrir flótta- og förufólki og líflátshótanir af hálfu talibana geti gert það mun auðveldara að fá hæli,“ segir Heshmat sem fór fram á að eftirnafni hans yrði haldið leyndu.
Smygl á fólki er að verða arðbær atvinnugrein í Afganistan enda skjótfengin gróði af tugum þúsundum örvæntingarfullra flóttamanna sem eru reiðubúnir til þess að leggja í hættuför yfir Miðjarðarhafið.
En þrátt fyrir að fölsuð bréf séu í umferð þá telur Heather Barr, sérfræðingur hjá Human Rights Watch, að það þýði ekki endilega að öll slík hótunarbréf séu það. Hún segir að Mannréttindavaktin hafi séð og rannsakað slík bréf sem voru greinilega ófölsuð.
„Það má heldur ekki gleyma því að dánartíðni er há í Afganistan og hún fer hækkandi. Ég myndi spyrja alla þá sem halda því fram að slíkar hótanir séu falsaðar um hvort þeir geti útskýrt hvers vegna svo margir þeirra sem er hótað, deyja,“ segir Barr.