Hinn 18 ára gamli Joshua Williams hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa stungið hinn 15 ára gamla Alan Cartwright til dauða í Norður-London. Williams var að reyna að stela hjóli Cartwright og náðist árásin á CCTV upptöku.
Williams var sakfelldur síðastliðinn þriðjudag fyrir morðið á Cartwright. Í dómsorðum sínum sagði dómarinn Rebecca Poulet að árásin hafi verið framkvæmd að ástæðulausu. „Hún var drifin áfram af græðgi og hefur hrætt almenning.“ Williams mun í fyrsta lagi geta losnað úr fangelsi eftir 21 ár. Ásamt honum voru tvö önnur ungmenni sem stóðu að árásinni. Þau bíða þess nú að mál þeirra verði dómtekið.
Samkvæmt The Telegraph átti árásin sér stað þann 27. febrúar. Árásarmennirnir náðu strax hjólum af tveimur vinum Cartwright en sjálfur vildi hann ekki gefa sig. Þá tók Williams upp hníf og réðist á Cartwright. Hann náði að hjóla smá spöl í burtu en féll þá í jörðina. Þegar aðstoð barst var Cartwright strax úrskurðaður látinn.
Fjölskylda Cartwright er miður sín vegna atviksins og vonast til að það leiði til vitundarvakningar og vill að dómar verði hertir vegna hnífaárása. Þá segir faðir Cartwright að hann vonist til þess að dauði sonar síns láti fólk hugsa sig tvisvar um áður en það fer út úr húsi með hníf.
Fjölskyldan ætlar sér að skipuleggja hjólaviðburð á afmæli Alans Cartwright til að vekja fólk til umhugsunar um hnífaárásir.