Vandi vegna víndrykkju Pútíns og Berlusconi

Silvio Berlusconi og Vladimír Pútín
Silvio Berlusconi og Vladimír Pútín AFP

Saksóknarar í Úkraínu undirbúa nú ákæru á hendur eiganda víngerðar á Krímskaganum, en heimildir herma að hann hafi opnað 240 ára gamla vínflösku fyrir Vladimír Pútín og Silvio Berlusconi til að njóta.

Pútín og Berlusconi eyddu síðastliðinni helgi á Krímskaganum þar sem þeir skoðuðu meðal annars fornar rústir, en þeim hefur verið ágætlega til vina allt frá því Berlusconi var forsætisráðherra Ítalíu.

Saksóknarar segja að þeir hafi drukkið vínið í hinni rómuðu Massandra víngerð. Massandra var í eigu úkraínskra yfirvalda áður en Rússland innlimaði Krímskagann í mars á síðasta ári. Ekki er hægt að leggja fram ákæru til dómstóla á sjálfum Krímskaganum þar sem Rússar fara þar með öll völd.

Vínið sem þeir félagar eru taldir hafa gætt sér á er metið á tæpar 12 milljónir íslenskra króna. Flaskan var spænsk og af gerðinni Jerez de la Frontera, árgangur frá 1775. Hún hafði þó ekki eingöngu fjárhagslegt verðmæti að mati saksóknara.

„Þetta var ein þeirra fimm flaskna sem standa ekki aðeins fyrir arfleifð Massandra eða Krímskagans, heldur arfleifð allrar úkraínsku þjóðarinnar,“ hefur fréttastofa BBC eftir Nazar Kholodnytsky, aðstoðarsaksóknara í Kænugarði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert