Ben Carson, sem sækist eftir útnefningu Repúblikana sem forsetaefni á næsta ári segir múslíma óhæfa til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna. Hann segir að trú þeirra sé ekki í samræmi við bandarískar lífsskoðanir. Þetta sagði Carson í þætti á NBC-sjónvarpsstöðinni í dag.
„Ég er ekki talsmaður þess að múslími verði fenginn til að leiða þessa þjóð. Ég myndi alls ekki samþykkja það,“ sagði Carson.
Carson hefur á undanförnum vikum verið næstefstur í fylgiskönnunum á frambjóðendum Repúblikanaflokksins. Aðeins Donald Trump nýtur meiri hylli meðal kjósenda flokksins. Carson datt reyndar niður í þriðja sætið eftir kappræður á CNN-sjónvarpsstöðinni í síðustu viku og naut þá 14% fylgis. Carly Fiorina, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hewlett-Packard, stökk upp í annað sætið með um 15% fylgi.
Carson er kristinn og sagðist hafa fengið hugmynd að skattastefnu sinni úr Biblíunni. Hann sagði í viðtalinu í dag að trúarbrögð forseta yrðu að passa við stjórnarskrá landsins. Spurður hvort íslam passaði við þá skilgreiningu hans, svaraði hann: „Nei. Það finnst mér ekki.“
Samtök múslíma í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt ummæli Carsons og segja að þau dæmi hann úr leik í forsetakjörinu þar sem stjórnarskrá Bandaríkjanna kveði á um að ekki skuli mismuna fólki, m.a. til opinberra starfa, vegna trúarbragða.
Auðmaðurinn Donald Trump var einnig í viðtali hjá NBC í dag og var spurður hvort hann myndi samþykkja múslíma sem forseta. „Sumir segja að það hafi þegar gerst,“ svaraði Trump en hann hefur ítrekað gefið í skyn að hann telji Barack Obama, Bandaríkjaforseta, ekki kristinn.