Einungis 55% kjósenda mætti á kjörstað í Grikklandi í gær sem er enn minna en í síðustu þingkosningum sem voru í janúar. Þá var kjörsókn 63%. Syriza, flokkur Alexis Tsipras, hlaut 35% atkvæða og mun mynda samsteypustjórn með Sjálfstæðum Grikkjum.
Tsipras segir að niðurstaða kosninganna sýni að Syriza flokkurinn hafi fullt umboð kjósenda til þess að stýra landinu. Hann varar grísku þjóðinni við því að leiðin til bata verði grýtt og batanum verði ekki náð nema með mikilli vinnu.
Öfgaflokkurinn Gullinn dögun er þriðji stærsti flokkurinn eftir kosningarnar með 7% atkvæða sem er heldur meira en í síðustu kosningum er flokkurinn fékk 6,3%. Hægri flokkurinn Nýtt lýðræði fékk 28% atkvæða.