Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, segir að landamærum Evrópu standi ógn af flóttafólki. Það sé við það að „berja niður dyrnar“ og að ríki álfunnar þurfi að standa sameinuð gegn vandanum.
Ráðherrar frá Ungverjalandi, Póllandi, Tékklandi og Slóvakíu funduðu í dag til að ræða tillögur Evrópusambandsins um flóttamannakvóta, sem ríkin eru mótfallin. Þýskaland og Frakkland eru hins vegar meðal þeirra ríkja sem hafa ýtt hvað mest á að „byrðinni“ verði deilt.
„Þeir eru að yfirtaka okkur,“ sagði Orban í dag, stuttlega áður en ungverska þingið samþykkti að veita hernum aukið vald til að fást við flóttamenn á landamærum ríkisins. „Þeir eru ekki aðeins að berja á dyrnar, þeir eru að brjóta dyrnar niður ofan á okkur. Landamærum okkar er ógnað. Ungverjalandi er ógnað og sömuleiðis gjörvallri Evrópu.“
Samkvæmt AFP hefur lögregla í Ungverjalandi fengið heimild til að fara inn á heimili til að leita að fólki sem grunur leikur á að hafi komið inn í landið með ólögmætum hætti.
Lubomir Zaoralek, utanríkisráðherra Tékklands, sagði í dag að kollegar hans í austurhluta Evrópu væru staðráðnir í því að ná samkomulagi um málið við önnur Evrópuríki. Á morgun munu innanríkis- og dómsmálaráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins funda í Brussel til að freista þess að finna lausn á því hvert skal flytja flóttafólkið sem komið er til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands.
Á miðvikudag munu leiðtogar Evrópuríkjanna mæta til sérstakrar ráðstefnu um málið.
Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur sagt að ekkert ríki verði undanþegið því að taka á móti flóttafólki. Þá hefur Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagt að Evrópa ætti að hjálpa Sýrlendingum við að öðlast betra líf nærri heimkynnum sínum.