Hólmfríður Gísladóttir
„Aðeins framtíðin mun leiða í ljós hvílík mistök þetta voru,“ sagði Milos Zeman, forsætisráðherra Tékklands, í dag eftir að innanríkisráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins samþykktu að taka á móti samtals 120.000 flóttamönnum.
Tékkland, Ungverjaland, Slóvakía og Rúmenía greiddu atkvæði á móti tillögunni og Finnland sat hjá.
Samþykktin hefur vakið mikla reiði meðal ríkjanna sem voru mótfallin tillögunni og Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu hefur þegar gefið út að hann muni ekki virða „þessa fyrirskipun meirihlutans“.
Radio Prague sagði frá því að stjórnvöld í Tékklandi hygðust fara með málið fyrir Evrópudómstólinn, en innanríkisráðherrann Milan Chovanec tísti að það myndi brátt koma í ljós að keisarinn væri fatalaus. „Dagurinn í dag markaði ósigur almennrar skynsemi,“ sagði hann.
Í Lettlandi, sem greiddi atkvæði með tillögunni, mótmæltu hundruðir í fjöldagöngu. Talsmaður Ungverjalands sagði hins vegar að þarlend stjórnvöld myndu virða tillöguna, en þess ber að geta að hluti flóttafólksins sem um ræðir verður fluttur frá Ungverjalandi og til annarra ríkja.
Samkvæmt stjórnarskrá Evrópusambandsins geta ríki sem eru ósátt við stefnumörkun í innflytjendamálum mögulega áfrýjað ákvörðunum til leiðtogaráðsins, ef þeim þykir „grundvallarundirstöðum“ ógnað.
Utanríkisráðherra Lúxemborgar, Jean Asselborn, sem stjórnaði fundinum í dag, sagðist þó ekki í vafa um að þau ríki sem hefðu verið mótfallin tillögunni myndu framfylgja henni.