„Ekkert ríki getur neitað“

AFP

„Ekkert ríki hefur rétt til þess að neita,“ sagði Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemburg, við blaðamenn í dag eftir fund forystumanna ríkja Evrópusambandsins sem aðild eiga að Schengen-samstarfinu þar sem ákveðið var að ríki sambandsins skiptu með sér að taka við 160 þúsund hælisleitendum sem komið hafa til þess að undanförnu.

Málið er mjög umdeilt og lögðust fjögur ríki Evrópusambandsins í Austur-Evrópu gegn ákvörðuninni en urðu undir í atkvæðagreiðslunni; Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland og Rúmenía. Haft er eftir Asselborn á fréttavefnum EUobserver.com að eftir sem áður verði ríkin fjögur að framfylgja ákvörðuninni. Fram kemur í fréttinni að ekki sé algengt að gengið sé gegn vilja minnihlutans í svo stóru máli á vettvangi sambandsins. Asselborn segir að reynt hafi verið að ná samstöðu um ákvörðunina en það hafi ekki tekist. Fyrir vikið hafi verið stuðst við aukinn meirihluta atkvæða.

„Ég efast ekki um að þau [ríkin sem lögðust gegn samþykktinni] eigi eftir að framkvæma þessar ákvarðanir að fullu í samræmi við lög Evrópusambandsins,“ segir Asselborn. „Við stöndum frammi fyrir neyðarástandi. Evrópusambandið er sakað um að bregðast ekki nógu hratt við. Því þurfi að samþykkja þessa áætlun. 

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lét þau orð falla eftir fundinn að hann myndi sjá til þess að ríkin fjögur framfylgdu ákvörðuninni. Ef þau gerðu það ekki gæti komið til þess að gripið yrði til viðurlaga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert