Boehner stígur til hliðar

John Boehner, fráfarandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
John Boehner, fráfarandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. AFP

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, repúblikaninn John Boehner, ætlar að stíga til hliðar í næsta mánuði eftir 24 ár á þingi og fjögur á stóli þingforseta. Boehner hefur þurft að sæta látlausri gagnrýni íhaldsömustu afla innan flokksins og er búist til harðri valdabaráttu í kjölfar brotthvarfs hans.

Fregnir af óvæntu brotthvarfi Boehner byrjuðu að kvisast út í dag en talsmenn hans hafa síðan staðfest að hann muni víkja af þingi 30. október. Harðlínumenn í Repúblikanaflokknum hafa véfengt Boehner við hvert fótmál undanfarin ár í öllu frá útgjaldamálum alríkisstjórnarinnar til fóstureyðinga. Hafa stækustu íhaldsmennirnir oft kallað eftir því að Boehner segði af sér.

Búist er við hörðu valdatafli þegar fulltrúadeildin þarf að velja sér nýjan forseta þar sem hörðustu íhaldsmennirnir eru taldir hugsa sér gott til glóðarinnar að ná frekari áhrifum í þinginu á kostnað hefðbundinna valdastofnana í Repúblikanaflokknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert