Leita lífs meðal látinna

Lík þeirra sem létust í Mina-dalnum. Að minnsta kosti 717 …
Lík þeirra sem létust í Mina-dalnum. Að minnsta kosti 717 létu lífið. AFP

Hrúgur af líkum og innan um þau fólk á lífi sem getur sig hvergi hrært. Björgunarmenn reyna að komast að hinum lifandi með því að draga líkin af þeim. Mitt í þvögunni má heyra fólk öskra af öllum lífs og sálarkröftum. 717 eru látnir. Mögulega fleiri. Um 900 eru slasaðir. Aðstæður á vettvangi slyssins við Mekka í Sádi-Arabíu í gær voru hryllilegar. 4.000 manna björgunarlið og 220 sjúkrabílar voru kallaðir til.

Konungur Sádi-Arabíu hefur fyrirskipað endurskoðun á öllum öryggisráðstöfunum í kringum trúarhátíðina hajj, einn stærsta viðburð í trúardagatali múslíma. Þá streyma um 2 milljónir manna víða að úr heiminum til Mekka. Pílagrímarnir koma m.a. við í Mina, þar er slegið upp tjaldbúðum á leiðinni til hinnar helgu íslömsku borgar. Það var þar sem slysið varð í gær. Gríðarlegur troðningur myndaðist á gatnamótum sem pílagrímarnir ganga um á leið sinni að stólpum sem þeir svo kasta steinvölum í áður en haldið er til Mekka. Þeir henda sjö steinvölum í stólpana sem eiga að tákna djöfulinn. Stólparnir standa á stað sem Satan er sagður hafa freistað spámannsins Múhameðs.

En mannfjöldinn var meiri en aðstæður gerðu ráð fyrir. Troðningurinn var svo mikill að fólk féll í yfirlið og tróðst undir.

Slysið átti sér stað kl. 9 að morgni að staðartíma. Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að stórir hópar pílagríma hafi komið að gatnamótum úr sitt hvorri áttinni. Allir voru þeir á leið að sömu götunni, í átt að stólpunum. 

„Ég sá einhvern hrasa um mann í hjólastól og svo duttu nokkrir ofan á þann mann,“ segir Bashir Sa'ad Abdullahi, fréttaritari BBC, sem var á staðnum. 

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa eytt milljörðum dollara í að bæta samgöngur til að koma í veg fyrir slys sem þessi í tengslum við pílagrímaferðirnar. Þær hafa nefnilega áður tekið sinn toll af mannfjöldanum. Árið 1990 létust t.d. yfir 1.400 manns, einmitt í troðningi í Mina-dalnum. Árið 1921 komu 57 þúsund pílagrímar til Mekka í tengslum við hajj-hátíðina. Fyrir þremur árum voru þeir 3,2 milljónir. Í fyrra fækkaði þeim niður í 2 milljónir. 

Samkvæmt opinberum tölum nú eru í það minnsta 717 látnir. 

Krónprins Sádi-Arabíu hefur farið fram á rannsókn á slysinu. 

„Hver svo sem niðurstaða rannsóknarinnar verður þá þarf þegar í stað að bæta öryggi og aðgerðir í tengslum við hajj,“ sagði Salman bin Abdulaziz Al Saud, konungur landsins.
Heimildir:
Lík liggja á víð og dreif við gatnamótin þar sem …
Lík liggja á víð og dreif við gatnamótin þar sem slysið varð. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert