Maður sem grunaður er um að hafa farið fyrir hópi sem smyglaði þúsundum flóttamanna frá Líbíu til Evrópu er talinn hafa fallið í skotárás á föstudag. Fregnir herma að Salah al-Maskhout hafi verið drepinn ásamt átta öðrum í höfuðborginni Tripoli, en hann rak starfsemi sína frá strandborginni Zuwara, þaðan sem fjöldi flóttamanna hefur lagt yfir Miðjarðarhaf.
Samkvæmt fjölmiðlum á svæðinu var Maskhout á leið frá ættingjum í fylgd öryggisvarða og annarra, þegar vopnaðir menn sátu fyrir honum. Síðarnefndu hófu skotárás, sem varð Maskhout og mönnum hans að bana.
Maskhout var herforingi í valdatíð Múammar Gaddafi, einræðisherra yfir Líbíu, sem steypt var af stóli og drepinn árið 2011.
Varnarmálaráðuneyti Ítalíu hefur neitað ásökunum um að það hafi átt aðkomu að árásinni og heimildarmaður innan Nató hafnaði því sömuleiðs í samtali við Guardian að bandalagið hefði skipulagt drápin.
Federica Mogherini, framkvæmdastjóri utanríkismála hjá Evrópusambandinu, tilkynnti í gær að aðgerðir gegn þeim sem smygluðu fólki yfir hafið hæfust 7. október nk.