Margir biðu klukkustundum saman. Sumir féllu í yfirlið vegna hita og matarskorts. En þegar Frans páfi leið um Central Park á páfabílnum yfirngæfnu öskur viðstaddra öll önnur hljóð. „Guð minn góður! Hann er hér!“ heyrðist fólkið kalla, yfir sig numið af gleði yfir því einstaka tækifæri að fá að berja páfann augum og fanga augnablikið á myndavélar, síma og spjaldtölvur.
Í fjöldanum sem safnaðist saman í New York voru ungir, aldnir og fatlaðir. Eldri konur sem stóðu marga klukkutíma og öskrandi börn, sem haldið var á lofti af foreldrum sínum. Tugþúsund sameinuð í trú sinni og ást á manni sem þykir hafa náð til fólks þvert á trúarbrögð.
„Vá. Þetta var vá-augnablik,“ sagði Indira Fraser, bókhaldari sem er ekki kaþólsk en tók sér frí til að halda upp á afmæli sitt. Að berja páfann augum var gjöf hennar til sjálfrar sín. „Ég er ekki kaþólsk. Ég er hérna af því að páfinn hefur kallað eftir þjónustu við samfélagið og ég er sjálfboðaliði, og líka til að verða vitni að sögulegum viðburði,“ sagði hún. „Hann er páfi fólksins, hann nær til allra.“
„Ég fékk gæsahúð,“ sagði vinkona hennar, Marilyn Ballie frá Queens, sem starfar sem endurskoðandi. Hún sagðist hafa hætt að sækja guðsþjónustur eftir að kynferðisbrot kirkjunnar manna komust í hámæli. „Hann hefur endurnýjað trú mína,“ sagði hún.
Það var sannkölluð karnival-stemning í garðinum þegar páfi fór þar um. Fólk veifaði fána Vatíkansins og sumir klæddust bolum með áletruninni „Ég elska Frans páfa“. Viðstaddir áttu eitt sameiginlegt: Þeir unnu miða á viðburðinn í nethappadrætti.
Fyrr um daginn leiddi páfi 700 í bæn við minnisvarða um þá sem létust í hryðjuverkaárásunum 11. september 2001, á staðnum þar sem tvíburaturnarnir stóðu. Viðstaddir voru fulltrúar fjölda trúarbragða.
„Á þessum stað sársauka og minninga er ég fullur vonar,“ sagði hinn 78 ára gamli páfi. „Ég vona að viðurvist okkar hér sendi áhrifamikil skilaboð um ósk okkar að deila saman, og staðfesta ósk okkar um að vera afl sáttar, afl friðar, réttalætis“
Páfi hóf dag sinn í New York með ávarpi á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en að minningarstundinni lokinni fékk hann hlýjar móttökur í kaþólskum skóla í Harlem. Hann virtist afslappaður, leyfði nokkrar „selfie“-myndatökur og virtist njóta sín meðal barnanna eftir stranga dagskrá síðustu daga.
Þegar hann ávarpaði viðstadda í skólanum vitnaði hann í Martin Luther King.
„Einn dag sagði hann: Ég á mér draum. Draumur hans var að mörg börn eins og þið hefðu aðgang að menntun. Ekki gleyma því. Í dag viljum við halda áfram að láta okkur dreyma.“