Tíu ár eru liðin frá því að skopmyndir Kurt Westergaard af Múhameð spámanni leiddu til öldu mótmæla meðal múslima en teiknarinn segist ekki finna til eftirsjár, aðeins reiði. Westergaard hefur borist fjöldi hótana og hann hefur notið lögregluverndar allt frá því að mynd hans af manni með sprengju vafða í túrban birtist í Jyllands-Posten 30. september 2005.
Árið 2010 braust maður vopnaður öxi og hníf inn á heimili Westergaard, sem neyddist til að leita skjóls í sérstöku neyðarherbergi í 10 mínútur, á meðan árásarmaðurinn reyndi að berja niður hurðina. Fimm ára barnabarn hans varð eftir í öðru herbergi.
„Grundvallartilfinning mín hefur verið og er reiði. Ef þér er ógnað þá held ég að reiði sé góð tilfinning, af því að þá ertu andlega tilbúinn til að verja þig,“ sagði teiknarinn í símasamtali við AFP.
Westergaard gengur jafnan um með skrautlega klúta um hálsinn, silfraðan göngustaf og mikið rautt skegg, og hverfur því ekki auðveldlega í fjöldann. Hann hefur vanist því að innflytjendur geri að honum hróp og köll.
„Ég á ekkert sökótt við múslima almennt, ég mun alltaf berjast fyrir rétti fólks til að iðka trú sína og trúarbrögð. Það er þeirra einkamál,“ segir Westergaard, sem ólst upp á strangrúuðu kristnu heimili en missti síðar trúnna.
Hann segir að teikningar sínar séu ekki árás á múslima, heldur gagnrýni gegn hryðjuverkamönnum sem sæki trúarleg vopn sín í Kóraninn.
Þegar Jyllands-Posten birti teikningarnar tólf, fór af stað alda mótmæla út um allan heim, þar sem danski fáninn var brenndur og kveikt var í diplómatískum aðsetrum. Fólk lét lífið.
Teikningarnar voru þáttur í umfjöllun um sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsið, sem vaknaði eftir að enginn fannst til að myndskreyta barnabók um Múhameð þar sem fólk óttaðist að teikningar af spámanninum, sem eru bannaðar samkvæmt íslamstrú, myndu vekja hörð og jafnvel ofbeldisfull viðbrögð.
Skopmyndir Westergaard komust aftur í umræðuna snemma á þessu ári, eftir árásirnar á skrifstofur skoptímaritsins Charlie Hebdo í París. Tímaritið hafði endurprentað dönsku teikningarnar til stuðnings tjáningarfrelsinu.
Minna en mánuði síðar myrti Omar El-Hussein kvikmyndagerðarmann fyrir utan viðburð í Kaupmannahöfn, þar sem tjáningafrelsið var til umfjöllunar. Meðal viðstaddra var sænski listamaðurinn Lars Vilks, en teikningar hans af Múhameð sem hundi höfðu, líkt og teikningar Westergaard, farið gríðarlega fyrir brjóstið á múslimum.
Klukkustundum síðar gerði maður skotárás á bænahús gyðinga í borginni. Einn lét lífið.
Að sögn Westergaard komu viðbrögðin við teikningum hans honum verulega á óvart.
„Gegnum árin hef ég teiknað fjölda skopmynda sem eru gagnrýnar á stjórnmálamenn og pólitík, þannig að þetta var fremur hefðbundin vinna. Þetta var bara eins og hver annar dagur í vinnunni,“ segir hann um hinn örlagaríka dag þegar teikningarnar af Múhameð urðu til.
Hann segist ekki sjá eftir neinu, enda telur hann að það sem gerðist hafi verið óumflýjanlegt.
„Í þetta skiptið voru það skopmyndir sem urðu kveikjan að þessum átökum eða árekstri, en það hefði allt eins getað verið leikrit, bók eða eitthvað annað,“ segir hann.
Westergaard lét af störfum hjá Jyllands-Posten árið 2010 og sagðist þá vona að draga myndi úr hættunni á því að blaðið yrði fyrir árás, en lagt hafði verið á ráðin um nokkrar slíkar.
Þrátt fyrir að blaðið hafi ávallt staðið við ákvörðun sína um að birta teikningarnar af Múhameð árið 2005, var það eina stóra dagblaðið í Danmörku sem birti engar teikningar Charlie Hebdo í kjölfar árásanna í París, þar sem 12 létu lífið. Ákvörðunin var tekin af öryggisástæðum.
„Sannleikurinn er sá að það væri fullkomlega óábyrgt af okkur að birta gamlar eða nýjar myndir af spámanninum á þessum tímapunkti,“ skrifaði ritstjórinn Jorn Mikkelsen.
Að mati Westergaard var ákvörðunin til marks um það hversu þrengt hefði að tjáningarfrelsinu af ótta við aðra árás. „Ég held að í dag séu Danir afar hræddir við hryðjuverk, við þessar skyndilegu árásir. Og það er mjög erfitt að viðurkenna að þú sért hræddur,“ segir hann.
Westergaard er sérstaklega gagnrýnin í garð formanns stéttarfélags skólastjóra, sem sagði nýlega að það væri óþarfi að sýna myndir af Múhameð í skólum.
„Þeir segja að nú verðum við að sýna umburðarlyndi og að við verðum að gæta okkar á því að móðga ekki múslimska samborgara okkar. En staðreyndin er sú að þetta snýst um ótta, og það er afar hryggilegt,“ segir Westergaard. „Að sjálfsögðu skil ég að fólk sé hrætt, en ég er reiðari en ég er hræddur.“
Síðan Westergaard lét af störfum hefur hann selt listaverk sín gegnum galleri og safnað fé fyrir góðgerðamálefni, og Charlie Hebdo.
Í samtalinu við AFP sagðist hann hlakka til þess að sjá hvernig danskir fjölmiðlar myndu fjalla um tíu ára afmæli birtingu hinna umdeildu skopmynda. Hann sagðist hins vegar telja að engar nýjar myndir myndu birtast af spámanninum, þar sem það væri of áhættusamt.
Westergaard sagðist vongóður um að ástandið væri tímabundið.
„Þú getur ekki haldið niðri eða hindrað fjölmiðlafólk, fræðimenn og listafólk frá því að nota tjáningarfrelsið.“