Frakkar gera loftárásir í Sýrlandi

Frönsk herþota hefur sig til flugs.
Frönsk herþota hefur sig til flugs. AFP

Frakkar hafa gert loftárásir á skotmörk Ríkis íslam í Sýrlandi í fyrsta sinn. Samkvæmt skrifstofu franska forsetaembættisins beindust loftárásirnar gegn skotmörkum sem borin voru kennsl á við eftirlitsflug á síðustu tveimur vikum.

Í stuttri tilkynningu kom fram að árásirnar hefðu verið skipulagðar í samráði við bandamenn. Franskar herþotur hafa áður gert skotárásir gegn hryðjuverkasamtökuknum, en aðeins í Írak.

Francois Hollande Frakklandsforseti tilkynnti fyrr í þessum mánuði að unnið væri að undirbúningi þess að senda herþotur til Sýrlands, þar sem þær myndu byrja á eftirlitsflugi til að bera kennsl á möguleg skotmörk.

Hann sagði á þeim tíma að öfl í Sýrlandi hefðu skipulagt hryðjuverkaárásir gegn Frakklandi.

Bandamenn, með Bandaríkjamenn í fararbroddi, hafa gert loftárásir gegn Ríki íslam í Sýrlandi og Írak í meira en ár. Frakkar hafa fram til þessa takmarkað þátttöku sína við aðgerðir gegn skotmörkum í Írak.

Sömu sögu er að segja af Bretum, en stjórnvöld í Bretlandi tilkynntu fyrr í þessum mánuði að breski herinn hefði notað ómannaða dróna í árás gegn tveimur breskum ríkisborgurum í Sýrlandi.

BBC sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert