Hann var bara sautján ára þegar hann var fangelsaður fyrir mótmæli og almenna pólitíska óþekkt meðan arabíska vorið stóð sem hæst. Stjórnvöld stungu honum í steininn og nú, þremur árum seinna, hefur hann verið dæmdur til krossfestingar og dauða af sérstökum glæpadómstól í landinu. Nái refsingin fram að ganga verður hann afhöfðaður og lík hans sýnt opinberlega, öðrum mótmælendum til varnaðar.
Alþjóðasamfélagið er í miklu uppnámi þessa dagana vegna meðferðar stjórnvalda í Sádi-Arabíu á Ali Mohammed al-Nimr og hafa Sameinuðu þjóðirnar krafist þess að hætt verði við fyrirhugaða aftöku og að réttað verði að nýju í máli unga mannsins. Í fyrsta lagi tilgreina mannréttindasérfræðingar SÞ ungan aldur al-Nimr, hann hafi verið undir lögaldri þegar meint brot var framið, og hins vegar grun þess efnis að hann hafi ekki notið sannmælis fyrir dómi og mögulega verið þvingaður, jafnvel pyntaður, til að játa á sig sakir. Þessu hefur al-Nimr haldið fram sjálfur. Fyrir liggur að al-Nimr hefur dregið játningu sína til baka en því er haldið fram að hann hafi aldrei fengið að hitta lögmann og hvorki haft aðgang að penna né bréfsnifsi meðan á réttarhaldinu stóð.
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.