Sjálfstæðissinnar náðu meirihluta á þingi Katalóníu á Spáni í þingkosningunum sem fram fóru í héraðinu um helgina en niðurstaðan þykir mikið áfall fyrir spænsku ríkisstjórnina sem beitt hefur sér af krafti gegn hugmyndum um sjálfstæði héraðsins. Sjálfstæðissinnar fögnuðu mjög í nótt eftir að niðurstaða kosninganna lá fyrir en forystumenn þeirra hafa lýst því yfir að stefnt sé að sjálfstæði í framhaldinu innan 18 mánaða.
Fram kemur í frétt AFP að búist sé við að stjórnmálaflokkar sem eiga það sameiginlegt að vilja sjálfstæða Katalóníu taki höndum saman og myndi héraðsstjórn undir forystu Arturs Mas, forseti héraðsins. Mas og helstu bandamenn hans náðu þó ekki hreinum meirihluta í kosningunum og þurfa því að semja um samstarf við róttæka vinstriflokkinn CUP sem er hlynntur sjálfstæði héraðsins. Þetta hefur orðið til þess að andstæðingar þess að Katalónía verði sjálfstætt ríki hafa vilja meina að kjósendur hafi hafnað sjálfstæði.
Bandalag sjálfstæðissinna hleut samtals 62 þingsæti af 135 og vantar því sex þingsæti til þess að ná meirihluta. Vinstriflokkurinn CUP hlaut hins vegar 10 þingsæti. Saman eru sjálfstæðissinnar því með 72 þingsæti af 135. Kjörsókn var mikil í kosningunum eða 77%. Bandalag sjálfstæðissinna hlaut 39,6% atkvæða og CUP 8,2%.
Ennfremur segir í fréttinni að niðurstaða þingkosninganna í Katalóníu auki á óvissuna í spænskum stjórnmálum á landsvísu en þingkosningar fara fram á Spáni eftir þrjá mánuði. Andstæðingar Þjóðarflokksins sem fer fyrir núverandi ríkisstjórn landsins hafa túlkað niðurstöðuna sem áfall fyrir flokkinn. Bæði vegna þess að honum hafi ekki tekist að halda aftur af sjálfstæðissinnum og vegna þess að flokkurinn tapaði verulegu fylgi í kosningunum í Katalóníu.