Kirkjan styður „heilaga baráttu“ Rússa

Dómkirkjan í Moskvu.
Dómkirkjan í Moskvu. Af Wikipedia

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan sagðist í dag styðja ákvörðun yfirvalda þar í landi að hefja loftárásir í Sýrlandi. Talsmaður kirkjunnar kallar baráttuna við hryðjuverk „heilaga baráttu“.

„Baráttan við hryðjuverk er heilög barátta og í dag er landið okkar hugsanlega sterkasta aflið sem berst gegn þeim,“ sagði talsmaður kirkjunnar, Vsevolod Chaplin í samtali við fréttastofuna Interfax.

Sagt var frá því fyrr í dag að loftárásir Rússa, sem hófust í dag, beinist að and­stæðing­um stjórn­valda í Sýr­landi en Bash­ar al-Assad, for­seti Sýr­lands, óskaði eft­ir því að Rússar myndu veita stjórn­völd­um í Sýr­landi hernaðaraðstoð. Það var samþykkt í efri deild rúss­neska þings­ins fyrr í dag.  

Chaplin lagði áherslu á það að kirkjan styðji ákvörðun yfirvalda en þau hafa sagst vilja sérstaklega ráðast á hryðjuverkasamtökin Ríki íslams.

„Þessi ákvörðun er í samræmi við alþjóðleg lög, hugarfar fólksins okkar og það sérstaka hlutverk sem landið okkar hefur alltaf spilað í miðausturlöndum,“ sagði Chaplin.

Múslímaklerkurinn Talgat Tadzhuddin, sem er yfir samtökum múslíma í Rússlandi, styður einnig hernaðaraðgerðirnar og benti á að Sýrland væri „eiginlega nágrannar okkar“.

Ráð með fulltrúum helstu trúarbragða í Rússlandi, Rétttrúnaðarkirkjunnar, kristni, íslam, gyðingdómi og búddisma, munu gefa út sameiginlega yfirlýsingu um skoðun þeirra á árásum Rússa í Sýrlandi.

„Í þessari yfirlýsingu munum við styðja þá ákvörðun sem ríkisstjórn okkar tók,“ sagði Tadzhuddin.

Fyrri frétt mbl.is: Rússar gera loftárás í Sýrlandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka