Fleiri byssur, fleiri morð

Fólk safnaðist saman til að minnast fórnarlamba gærdagsins.
Fólk safnaðist saman til að minnast fórnarlamba gærdagsins. AFP

Í desember 2012 gekk vopnaður maður inn í Sandy Hook barnaskólann í Newton í Connecticut ríki Bandaríkjanna. Hann náði að myrða tuttugu börn og sex fullorðna áður en hann beindi vopninu að sjálfum sér. Málið vakti óhug um allan heim og skapaði, eins og svipuð mál svo oft áður, umræðu um vopnalöggjöf í Bandaríkjunum. Lítið hefur gerst varðandi breytingar á löggjöfinni síðan en að minnsta kosti 1.234 hafa látið lífið í svokölluðum fjöldaskotárásum síðan. Fjöldaskotárásir eru flokkaðar sem þær skotárásir þar sem fjórir eða fleiri eru skotnir og hafa 986 þess háttar árásir átt sér stað í Bandaríkjunum frá ársbyrjun 2013. Byssumenn í þeim árásum hafa jafnframt sært 3.565 manns.

The Mass Shooting Tracker er bandarískur gagnagrunnur sem hefur skráð niður fjöldaskotárásir í landinu frá ársbyrjun 2013. Gera má ráð fyrir því að það vanti einhverjar árásir í gagnagrunninn og að það vanti upplýsingar um sumar þeirra árása sem eru í grunninum.

Glíma oft við andleg veikindi

Í gær féllu níu manns í skotárás í Umpqua há­skól­an­um í Or­egon ríki. Þar að auki særðust sjö í árás hins 26 ára gamla Chris Harper Mercer. Mercer var skotinn til bana af lögreglumanni en í dag hafa komið fram í fjölmiðlum upplýsingar um að Mercer hafi verið afar ein­rænn og glímt við and­leg veik­indi.

Það hefur oft einkennt byssumenn sem fara á fjölfarna staði og hefja skotárás að þeir glíma við andleg veikindi. Má þar nefna til að mynda árásarmanninn í Sandy Hook, hinn tvítuga Adam Lanza og James Holmes, sem skaut tólf til bana og særði 70 í kvikmyndahúsi í Colorado sumarið 2012. Það er þó alls ekki alltaf og eru skotárásir gerðar af andlega veikum aðeins lítill hluti skotárása í Bandaríkjunum. 

32.000 líf á ári hverju

Menn eru óssamála um hvort að fjöldaskotárásir, þar sem fleiri en fjórir eru skotnir, séu að aukast í Bandaríkjunum eða ekki. Hugtakið fjöldaskotárásir er þó ekki notað undir átök glæpagengja eða eiturlyfjasala heldur á það frekar við þegar að fórnarlömbin eru fólk að sinna sínum daglegu störfum sem þekkja oft ekki árásarmanninn.

Aðeins er hægt að tengja lítinn hluta dauðsfalla í Bandaríkjunum á ári hverju af völdum skotvopna til fjöldaskotárása.

Rúmlega 32.000 manns láta lífið á ári hverju í Bandaríkjunum af völdum skotvopna og er ljóst að byssuofbeldi er miklu algengara í Bandaríkjunum en öðrum löndum. Samkvæmt göngum frá Sameinuðu þjóðunum sem birtust í The Guardian létu 29,7 manns fyrir hverja milljón lífið af völdum skotvopna í Bandaríkjunum árið 2012. Í Sviss var hlutfallið 7,7 á móti einni milljón og 5,1 í Kanada. Í Þýskalandi var hlutfallið 1,9.

Fleiri byssur, fleiri morð

En af hverju er þetta svona algengt í Bandaríkjunum? Ein möguleg útskýring er sú einfalda staðreynd að Bandaríkjamenn eru mun líklegri til þess að eiga byssu en aðrir. Bandaríkjamenn eru um 4,4% jarðarbúa en eiga 42% skotvopna heimsins í eigu almennra borgara. Rannsóknir sýna að staðir þar sem fleiri byssur eru, þar verða fleiri morð.

Afbrotafræðingar líta almennt svo á að þessi mikla byssueign almennra borgara í Bandaríkjunum stafi af menningarlegum ákvörðunum og stefnumálum sem hafa gert skotvopn miklu aðgengilegri í Bandaríkjunum en í öðrum löndum. Það þýðir þó ekki aðeins að meira sé um fjöldaskotárásir, heldur að meira sé um ofbeldi tengt skotvopnum almennt.

Ekki eina þjóð heims sem glílmir við andleg veikindi

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi vegna árásarinnar í Oregon. Þar sagði hann m.a. að fjöldamorð af þessu tagi væru að verða vanaleg í Bandaríkjunum. Forsetinn lýsti yfir reiði og sorg og kallaði eftir því að lögum um skotvopn í Bandaríkjunum yrði breytt.

„Við erum ekki eina landið í heim­in­um þar sem fólk með and­leg veik­indi býr eða fólk sem vill skaða aðra. En við erum eina þróaða landið í heim­um sem upp­lif­ir fjölda­morð af þessu tagi á nokk­urra mánaða fresti,“ sagði forsetinn.

Umfjöllun Vox

Tuttugu börn voru myrt í Sandy Hook barnaskólanum í desember …
Tuttugu börn voru myrt í Sandy Hook barnaskólanum í desember 2012. AFP
James Holmes var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir fjöldamorð í kvikmyndahúsi.
James Holmes var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir fjöldamorð í kvikmyndahúsi. AFP
Barack Obama var brúnaþungur á blaðamannafundi í gærkvöldi.
Barack Obama var brúnaþungur á blaðamannafundi í gærkvöldi. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert