Eigendur vændishúsa í Hollandi verða að geta átt samskipti við kynlífsstarfsmenn sína á þeirra eigin tungumáli til þess að geta varið þá gegn misnotkun. Þetta er niðurstaða Evrópudómstólsins, (CJEU), æðsta dómsvalds ESB.
Yfirvöld í Amsterdam máttu því synja eiganda vændishúss í borginni um starfsleyfi vegna þess að hann talaði hvorki ungversku né búlgörsku. Rekstur vændishúsa er löglegur í Hollandi en til þess þarf leyfi frá yfirvöldum sem á sama tíma eru að reyna að stemma stigu við mansali og misnotkun þeirra sem þar starfa.
Úrskurðir CJEU eru bindandi í öllum 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins.
Í tilkynningu frá CJEU kemur fram að dómstóllinn álýtur að það megi krefjast þess að eigandi vændishúss geti átt samskipti við vændiskonur sem þar starfa á sama tungumáli og þær tala.
Að öðrum kosti er ekki hægt að koma í veg fyrir að þær séu misnotaðar með saknæmum hætti.
Í frétt BBC kemur fram að niðurstaða CJEU komi í kjölfar þess að borgaryfirvöld í Amsterdam neituðu að veita eiganda vændishúss nýtt starfsleyfi í Rauða hverfinu. Synjunin hafi verið réttlæt með vankunnáttu hans í ungversku og búlgörsku. Það er hann gat ekki spurt þær á þeim tungumálum hvort þær hafi verið seldar mansali eða neyddar í vændi.