Vatíkanið hefur leyst frá guðfræðilegum störfum pólskan prest, Krysztof Charamsa, eftir að hann kom út úr skápnum með táknrænni athöfn að viðstöddum fjölmiðlum í Róm í dag. Í fyrstu var ætlunin að halda athöfnina fyrir framan Vatíkanið en hætt var við það á síðustu stundu. Charamsa upplýsti samtímis að hann ætti í sambandi við mann, en reglur kirkjunnar krefjast sem kunnugt er skírlífis af prestum óháð kynhneigð þeirra.
Charamsa starfaði innan kennisetningaarms Vatíkansins og kenndi kristin fræði við prestskóla í Róm. Ráðstefna um viðhorf kirkjunnar til fjölskyldumála, þ.á.m. samkynhneigðar, fer fram á morgun, sunnudag, og vísaði Vatíkanið til þess að aðgerðir Charamsa beindu óeðlilega mikilli athygli og þrýstingi að ráðstefnunni. Framtíð Charamsa sem prests verður ráðin af biskup í framhaldinu.
Charamsa sagði sig knúinn til þess að koma út úr skápnum til þess að varpa ljósi á málefni hinsegin fólks og þrýsta á kirkjuna að taka hinsegin meðlimum safnaða betur. Hann segir kirkjuna koma fram af hómófóbíu og bað páfann að hugsa til alls hinsegin fólks sem barna kirkjunnar og manneskja. Þá sagði hann Vatíkaninu ekki stætt á því að koma áfram fram við hinsegin fólk af fyrirlitningu og gaf sterklega í skyn að innan veggja Vatíkansins störfuðu margir samkynhneigðir menn.
Vatíkanið hefur staðið í ströngu nýverið við að fjarlægja sig frá umdeildum fundi páfa og Kim Davis, sýsluritarans frá Kentucky sem sat nýverið í steininum fyrir að neita að veita samkynhneigðum giftingarleyfi. Vilja menn þar á bæ hafa á hreinu að páfi hafi ekki verið með því að lýsa sig sammála Davis.