Bashar al-Assad, forseti Sýrlands segir að bandalag Rússlands, Írans, Íraks og Sýrlands sé mjög mikilvægt fyrir löndin og að íhlutun Rússa í borgarastríðinu sé lífsnauðsynleg fyrir svæðið í heild. Þetta kom fram í ávarpi forsetans í dag.
Rússland gerði á miðvikudaginn loftárás í Sýrlandi, en stjórnvöld í Moskvu segja að þau séu að reyna að granda skotmörkum sem tengjast íslamska ríkinu.
Bandaríkjamenn og aðrir andstæðingar hafa aftur á móti sagt að Rússland sé með árásunum aðallega að sækja fram gegn hófsamari uppreisnarhópum sem Vesturlöndin styðji.
Í ávarpi sínu óskaði al-Assad eftir því að vesturveldin myndu taka saman höndum með Rússum í árásum sínum og berjast gegn hryðjuverkamönnum. Vestræn ríki og Persaflóaríkin hafa farið fram á það við al-Assad að hann segi af sér sem forseti eftir að hafa stýrt landinu í gegnum fjögur ár af borgarastyrjöld.