Síðasta skotvopnaverslun San Francisco, High Bridge Arms, verður lokað fyrir fullt og allt vegna nýs frumvarps sem borgarfulltrúinn Mark Farrell hefur lagt fram. Verði frumvarpið að lögum verður skotvopnaverslunum gert að taka alla sölu á byssum upp á myndband og veita lögreglu reglulega skýrslur um kaup á skothylkjum.
Steve Alcairo, framkvæmdastjóri verslunarinnar, segir í viðtali við AP að frumvarpið sé síðasta hálmstráið í fjandsamlegu viðskiptaumhverfi. Í yfirlýsingu High Bridge Arms á Facebook segir að verslunin muni loka dyrum sínum í lok október eftir langa og erfiða vegferð.
„Ég geri viðskiptavinum mínum þetta ekki. Nú er komið nóg,“ sagði Alcairo um þá hugmynd að taka viðskipti í versluninni upp á myndband. „Að kaupa skotvopn er stjórnarskrárvarinn réttur. Það ætti ekki að koma fram við viðskiptavini okkar eins og þeir séu að gera eitthvað af sér.“
Verslunin hefur verið rekin á götunni Mission Street allt frá opnun hennar um miðjan sjötta áratuginn. Eigendur hennar þurftu að berjast fyrir lífi hennar árið 2010 þegar hópar nágranna hennar mótmæltu enduropnun verslunarinnar. Verslunin hafði þá verið lokuð þar sem eigendurnir hugðust breyta húsnæðinu í skrifstofuhúsnæði en ekki fékkst leyfi fyrir breytingunni hjá borginni. Í kjölfarið fóru lögregluyfirvöld fram á að verslunin myndi auka myndbandaeftirlit og setja upp hindranir utan við verslunina til að koma í veg fyrir að þjófar gætu brotið sér leið inn um glugga hennar.
Alcairo ólst upp í nágrenni verslunarinnar og segist reiður og vonsvikinn gagnvart San Francisco.
„Þetta er borgin sem varði hjónaband samkynhneigðra og berst fyrir óvinsælum málefnum eins og marijúana í lækningaskyni,“ segir hann. „Hvar er stuðningurinn við mig?“