Nota ESB til að sniðganga lýðræðið

AFP

Stjórnmálamenn nota Evrópusambandið til þess að komast hjá því að koma málum í gegnum þjóðþing heimalanda sinna sem þau myndu ekki samþykkja. Þetta viðurkenndi Karen Bradley, ráðherra í innanríkisráðuneyti Bretlands, á fundi sem fram fór í tengslum við flokksþing breska Íhaldsflokksins, en löggjöf Evrópusambandsins er æðri lögum aðildarríkja sambandsins.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Independent að Bradley hafi greint fundarmönnum frá því að ríkisstjórnir annarra ríkja innan Evrópusambandsins fengju stundum breska Evrópuþingmenn til þess að koma löggjöf í gegnum Evrópuþingið svo hún yrði ekki stöðvuð af þjóðþingum ríkjanna. Hún hafi nefnt sem dæmi reglur um skyldu flugfélaga til þess að halda skrár yfir nöfn flugfarþega sem breskir þingmenn ynnu að því að fá samþykktar á Evrópuþinginu fyrir ákveðið ríki sem hún hafi ekki upplýst hvert væri.

Biðja breska þingmenn um hjálp

„Þegar ég hef rætt við samráðherra mína frá Evrópuríkjum um farþegaskrár hefur verið nokkuð ljóst að ráðamenn allra þessara ríkja vilja þær en þeir koma málinu ekki í gegnum þjóðþingin sín,“ sagði Bradley á fundi á vegum bresku samtakanna Conservative Europe Group sem eru hlynnt áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu. 

„Þeir geta ekki komið einhverju eins og farþegaskrám í gegnum eigin þjóðþing. Svo þeir hafa sagt við okkur: Getið þið hjálpað okkur og fengið þetta samþykkt á vettvangi Evrópusambandsins? Einn Evrópuþingmanna okkar, Timothy Kirkhope, er að koma málinu í gegnum Evrópuþingið í þessum töluðu orðum,“ sagði ráðherrann ennfremur.

Getur gert það sem henni sýnist

Bradley sagði að með þessum hætti væri beinlínis hægt að nota Evrópusambandið til þess að koma á löggjöf sem ríkisstjórn Bretlands vildi. Nýta þyrfti Evrópusambandið og tengsl við önnur ríki þess, sem og völd Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar sambandsins, til þess „að ná í gegn þeim málum sem við viljum“. Unnið væri að því í breska innanríkisráðuneytinu.

„Þetta er sönnun þess að ríkisstjórn Bretlands notar Evrópusambandið til þess að grafa undan lýðræðinu í landinu,“ er haft eftir Gerard Batten, þingmanni Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP) á Evrópuþinginu, í frétt blaðsins. „Þetta sýnir líka hvers vegna valdaelítan er svona hrifin af Evrópusambandinu. Þetta gerir henni kleift að sniðganga almenning og gera það sem henni sýnist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert