Framkvæmdastjóri Instagram, Kevin Systrom, hefur nú greint frá því að það sé reglum tæknirisans Apple að kenna að Instagram taki niður myndir sem sýna geirvörtur kvenna. People segir frá þessu.
Systrom var spurður út í málið í London á dögunum en konur um allan heim hafa kvartað yfir því að myndir þar sem þær sýna geirvörtur sínar hafi verið teknar niður. Að sögn Systrom eru það strangar reglur App Store Apple sem krefst þess að geirvörturnar sjáist ekki. Apple bannar nekt í smáforritum nema þau séu bönnuð fólki undir sautján ára aldri. Hann sagði að ef reglurnar yrðu brotnar gæti Instagram verið hent útaf App store.
Systrom sagði jafnframt að Instagram leitaði eftir því að höfða til notanda á ýmsum aldri og ef það yrði bannað sautján ára og yngri myndu þeir missa marga notendur. Í dag er smáforritið bannað notendum yngri en tólf ára.
Ekki eru þó allar myndir sem sýna geirvörtur bannaðar á miðlinum. Hann hefur leyft myndir sem sýna brjóstagjöf og ör eftir brjóstnám. Þar að auki má birta myndir sem sýna nekt í formi höggmynda eða málverka.
Stjörnurnar Chrissy Teigen, Miley Cyrus og Chelsea Handler hafa allar birt myndir á Instagram sem teknar voru niður. Í október 2014 birti Handler mynd af sér þar sem hún var ber að ofan á hestbaki. Var myndin skírskotun í svipaða mynd af Vladimir Pútín, Rússlandsforseta. Myndin var fjarlægð af Instagram og birti Handler viðvörun Instagram.
„Ef að maður birtir mynd af sínum geirvörtum er það í lagi en ekki hjá konum. Er árið 1825?“