Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur beðið yfirmann hjálparsamtakanna Lækna án landamæra afsökunar á því að a.m.k. 22 hafi látist í loftárás Bandaríkjahers sem var gerð á sjúkrahús samtakanna í afgönsku borginni Kunduz.
Bandarísk yfirvöld hafa viðurkennt mistök en þau segja að tilgangurinn hafi verið að gera árás á talibana. Obama hefur jafnframt beðið forseta Afganistans afsökunar.
Læknar án landamæra vilja að árásin verði rannsökuð sem stríðsglæpur, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.
„Ef það er nauðsynlgt að draga einstaklinga til ábyrgðar, þá mun það verða gert,“ segir Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins. Hann sagði ennfremur, að Obama hefði vottað Joanne Liu, yfirmanni Lækna án landamæra, samúð.
„Þegar við gerum mistök í Bandaríkjunum, þá tölum við um það af hreinskilni. Við viðurkennum þau,“ sagði Earnest ennfremur.
Þá gaf hann í skyn að það kæmi til greina að greiða fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra bætur vegna mistakanna.
Árásirnar á sjúkrahúsið voru mistök
Talibanar voru ekki inni á sjúkrahúsinu
Bandaríkjamenn grunaðir um árásina