Fjórar stýriflaugar Rússa hafa hafnað í Íran, en flaugunum var skotið úr rússneskum herskipum í Kaspíahafi. Þetta er haft eftir ónefndum bandarískum embættismönnum. Ekki liggur fyrir hvort þær hafi valdið eyðileggingu eða manntjóni.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur neitað að tjá sig um málið, að því er segir á vef BBC. Rússar segjast hafa skotið 26 stýriflaugum á skotmörk í Norður- og Norðvestur-Sýrlandi.
Atlantshafsbandalagið (NATO) ítrekaði í dag að það myndi verja bandamenn sína í ljósi hernaðaraðgerða Rússa í Sýrlandi. NATO hefur ákveðið að efla viðbragðssveitir sem hægt er að senda á vettvang með hraði.
Yfirvöld í Rússlandi neita þeim fullyrðingum Vesturveldanna, að þeir hafi aðallega gert árásir á andstæðinga Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. Rússar segja að þeir hafi hæft skotmörk sem tengjast hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og öðrum uppreisnarhópum.