Óhugsandi hryllingur á torginu

Frá mótmælum gegn árásunum í Ankara.
Frá mótmælum gegn árásunum í Ankara. AFP

Torgið fyrir framan aðallestarstöð Ankara var vettvangur friðarsamkomu fólks í morgun. En klukkan 10:04 að staðartíma breyttist allt og er talið að það augnablik og afleiðingar þess muni marka sögu Tyrklands að eilífu.

Óhugsandi hryllingur átti sér stað á torginu þegar að tvær sprengjur sprungu. Talið er að um sjálfsmorðsárásir hafi verið að ræða og er ljóst að þær eru blóðugustu árásir í sögu Tyrklands nútímans.

Fréttaritari AFP lýsir því hvernig tugir líka fylltu torgið en þeim var raðað hlið við hlið á jörðinni áður en hægt var að flytja þau í líkhús. „Ég sá mann liggja í jörðinni sem hafði misst fótlegg. Ég sá líka handlegg sem hafði rifnað af liggjandi á malbikinu,“ sagði hin átján ára gamla Sahin Bulut.

Kraftur sprenginganna var það mikill að gluggar lestarstöðvarinnar brotnuðu. Ofbeldi af þessu tagi hefur aldrei áður gerst í höfuðborginni sem er lýst sem skiplögðum stað og andstæðunni við hina kaótísku Istanbúl.

„Við heyrðum háan hvell og svo minni sprengingu. Síðan var mikil hreyfing og ofsahræðsla. Svo sáum við lík í kringum lestarstöðina,“ sagði Ahmet Onen sem tók þátt í friðarsamkomunni. „Samkoma til þess að ýta undir frið breyttist í fjöldamorð, ég skil þetta ekki,“ sagði hann grátandi.

Um tíuþúsund manns söfnuðust saman í Istanbúl í dag til þess að mótmæla sprengjuárásunum. Fólkið fyllti miðborgina og var lögregla mjög áberandi en skipti sér ekki af mótmælendum. Sumir báru skilti þar sem á stóð „Ríkið er morðingi“ og „Við vitum hverjir morðingjarnir eru“ en yfirvöld hafa verið sökuð um að bera ábyrgð á árásunum að hluta til.

Einnig var mótmælt í borgum eins og Izmir, Batman og Diyarbakir. Í Diyarbakir þurfti lögregla að beita táragasi á mótmælendur.

Ástandið er slæmt við lestarstöðina.
Ástandið er slæmt við lestarstöðina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert