Myndbandið hér að neðan sýnir síðustu augnablik tveggja ungra manna sem létust í árekstri í Sussex í Bretlandi í fyrra. Fjölskyldur þeirra vilja að þú horfir á það.
Mennirnir tveir, Kyle Careford sem var tvítugur og Michael Owen sem var 21, voru báðir í vímu þegar þeir settust upp í bílinn. Þeir eru sagðir hafa tekið bæði lyfseðilsskyld lyf sem og ólögleg fíkniefni. Careford ók bílnum en hann var ekki með ökuskírteini. Í myndbandinu sést og heyrist hvernig Owen eggjar hann áfram í að ná upp hraða, allt upp í tæpa 150 km/klst. Við lok myndbandsins má þó heyra að Owen er hætt að lítast á blikuna og hann biður Careford um að hægja á sér rétt áður en þeir enda á kirkjuvegg.
Síminn sem myndbandið er tekið upp á heldur áfram að taka upp eftir áreksturinn og má heyra konu spyrja hvort einhver sé enn á lífi inni í bílnum. Owen, sem var eigandi bílsins, átti fimm ára dóttur. Fjölskyldur mannanna tveggja segja það þess virði að gefa myndbandið út ef það kemur í veg fyrir að jafnvel bara ein manneskja geri sömu mistök og þeir.
Á vefsíðunni Jalopnik.com er haft eftir einum fjölskyldumeðlimi mannanna að hann vilji að ungt fólk sjái myndbandið og átti sig á því að það sé ekki ósigrandi.
„Það kom mér í mikið uppnám að horfa á myndbandið en ég er að vona að það geti verið notað á jákvæðan hátt, til að sýna ungu fólki hvað gæti komið fyrir það.“