Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrirskipaði í dag spænskum stjórnvöldum að leggja fram nýtt uppkast að ríkisfjárlögum með lægri fyrirhuguðum fjárlagahalla svo tryggja megi að Spánn brjóti ekki í bága við reglur sambandsins um ríkisútgjöld.
Fram kemur í frétt AFP að fyrirmælin frá Evrópusambandinu sáu áfall fyrir ríkisstjórn Spánar þar sem búist sé við að þingkosningarnar 20. desember snúist að miklu leyti um efnahagsmál landsins. Samkvæmt reglum evrusvæðisins þurfa ríki þess að fá samþykki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir fjárlagafrumvörpum sínum.
Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerir ráð fyrir 4,5% fjárlagahalla á þessu ári og 3,5% á því næsta. Þetta telur framkvæmdastjórnin ekki ásættanlegt enda leiði það ekki til þess að fjárlög verði hallalaus árið 2016 eins og hún hafi gert kröfu um. Reglur evrusvæðisins gera ráð fyrir 3% hámarksfjárlagahalla.