Hótaði skotárás í háskóla

AFP

Lögregla í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum handtók í gær nemanda við Háskólann í Atlanta sem hafði hótað því að skjóta samnemendur sína. Nemandinn, hin 21 árs gamla Emily Sakamoto, lét ummælin falla í gegnum símaappið Yik Yak sem gerir notendum þess kleift að sjá skilaboð sem send eru með því í átta kílómetra radíus.

„Ég ætla að hefja skotárás í skólanum. Á morgun. Haldið ykkur á herbergjunum ykkar,“ sagði Sakamoto í skilaboðunum samkvæmt frétt AFP. Skilaboðin voru einungis aðgengileg í nokkrar mínútur en fjölmargir nemendur sáu þau engu að síður og létu lögregluna vita. Fram kom í yfirlýsingu frá háskólanum að Sakamoto hafi viðurkennt að hafa sent skilaboðin og hafi verið tekin höndum. Hún hefur ákærð fyrir hryðjuverkahótun.

Einungis vika er síðan byssumaður skaut níu manns til bana í háskóla í Oregon-ríki í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert