Myndir sem hafa verið birtar á samfélagsmiðlum af flugfreyjum liggjandi í farangurshólfi fyrir ofan sæti í farþegarými þotu kínversks flugfélags hafa vakið mikla reiði. Myndirnar voru fyrst birtar á WeChat-spjallvefnum og segir í texta með myndunum að flugfreyjurnar séu neyddar til þess að leggjast í farangursrýmið af starfsmönnum við öryggisgæslu. Þetta þurfi þær að gera eftir að hafa staðið vaktina í 30-50 klukkustundir. Um siðvenju sé að ræða innan flugiðnaðarins.
Á vef BBC kemur fram að kínverska flugfélagið, Kunming Airlines, hafi sent frá sér tilkynningu um að málið sé í rannsókn. Atvikið hafi átt sér stað eftir vakt áhafnarinnar og að öryggi um borð hafi ekki raskast. Flugfélagið segir að flugfreyjur hafi aldrei kvartað yfir þessari hefð. En þess verði gætt að þetta gerist ekki aftur.
Kínverska ríkissjónvarpsstöðin CCTV segir á Facebook-síðu sinni að margar flugfreyjur séu ósáttar við þessa hefð en þori ekki annað en að taka þátt svo þær séu samþykktar af eldri og reyndari starfsfélögum. Fjölmargar þeirra hafi lagt fram kvartanir til flugfélagsins án árangurs.
Fjölmargir netverjar hafa lýst yfir stuðningi við flugfreyjurnar enda sé starf þeirra nægjanlega erfitt fyrir. Meðal annars vegna erfiðra farþega og óreglulegs vinnutíma.
Des hôtesses de Kunming Airlines seraient harcelées par leurs collègues masculins - http://t.co/C9q4ujCOrV pic.twitter.com/lh8pbjg82J
— Crash Aérien (@crashaerien) October 12, 2015