Vildi skaðabætur fyrir knúsið

Connell féll og úlnliðsbrotnaði þegar drengurinn stökk á hana.
Connell féll og úlnliðsbrotnaði þegar drengurinn stökk á hana.

Kona í New York sem lögsótti ungan frænda sinn fyrir að faðma sig of fast hefur tapað dómsmálinu að því er Buzzfeed greinir frá.

Hafði konan, Jennifer Connell, farið fram á 127.000 Bandaríkjadali í skaðabætur en hún sagði frænda sinn hafa slasað sig við faðmlagið. Kviðdómur komst hinsvegar að hinn 12 ára gamli Sean Tarala væri ekki skaðabótaskyldur vegna faðmlagsins.

Atvikið átti sér stað í afmælisveislu drengsins fyrir fjórum árum síðar þegar hann var átta ára gamall. Hann var eini sakborningurinn í málinu en faðir hans fylgdi honum í réttarsalinn. Móðir drengsins lést í fyrra.

Connell sagði að þegar hún mætti til veislunnar árið 2011 hafi Tarala verið að leika sér á nýja hjólinu sínu. Þegar hann sá hana hafi hann æpt „Jen frænka, Jen frænka,“ og stokkið í fang hennar. Við það hafi Connell fallið og úlnliðsbrotnað. Connell sagði úlnliðsbrotið hafa gert það að verkum að hún átti erfitt með að komast um í Manhattan þar sem hún bjó. Hún sagði meiðslin einnig hafa verið til trafala á annan hátt.

„Ég var í veislu nýlega og það var erfitt að halda á smáréttabakkanum mínum,“ sagði Connell meðal annars fyrir rétti.

Það tók kviðdóminn aðeins 25 mínútur að komast að niðurstöðu, Tarala í hag. Lögmaður drengsins, Thomas Noniewicz sagði í samtali við New York Daily News að niðurstaðan væri réttlát.

„Börn eru og verða börn. Hann var átta ára drengur að vera átta ára drengur...Sean var ekki vanrækinn.“ Lögfræðingur Connell, William Beckert, sagði skjólstæðing sinn ekki njóta þess að lögsækja frænda sinn en að hann hefði átt að vita betur. „Við höfum reglur fyrir börn,“ sagði hann. „Hann var ekki varfærinn, hann gætti ekki að sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert