Vilja fingraför íbúa ESB-ríkja

Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. AFP

Frönsk stjórnvöld vilja að settar verði reglur innan Evrópusambandsins um að tekin verði fingraför allra íbúa ríkja sambandsins sem ferðist á milli þeirra. Jafnvel að andlit þeirra verði einnig skönnuð. Tillagan er sett fram í tengslum við hugmyndir um að koma upp svokölluðum „snjalllandamærum“ á ytri landamærum Schengen-samstarfsins.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að tillagan hafi verið rædd á fundi innanríkisráðherra Evrópusambandsins í Luxemburg 8. október. Hugmyndin um snjalllandamæri snýst einkum um aukna notkun lífsýna við landamæraeftirlit. Hún kom upphaflega fram hjá framkvæmdastjórn sambandsins árið 2013 en var meðal annars lögð til hliðar vegna mikils kostnaðar við að framkvæma hana.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir kerfið nauðsynlegt til þess að auðvelda ferðalöngum lífið og hafa betra eftirlit með fólki sem er lengur í ríkjum sambandsins en vegabréfsáritun þeirra leyfir. Hugmyndir franskra stjórnvalda um að taka niður fingraför allra íbúa ríkja Evrópusambandsins sem ferðist á milli þeirra eru réttlættar með þeim hryðjuverkaárásum sem gerðar hafi verið í Frakklandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert